

„Allar líkur eru á myndun snjókomubakka undan Suðurlandi næsta sólarhringinn. Gerist yfir tiltölulega hlýjum sjónum, en undir áhrifum kuldans frá landi,“ segir í færslunni.
Bent er á að röð spátunglamynda á þriggja klukkustunda fresti frá klukkan 15 í dag til miðnættis annað kvöld sýni ágætlega hvað þarna er á ferðinni.
„Um er að ræða myndun skammlífrar smálægðar, þar sem skýin ná ekki svo hátt til lofts. Við þekkjum ágætlega ólíkindi svona „djöfla“, og alls ekki á vísan að róa með spálíkönin. Séu þau frá í morgun túlkuð bókstaflega verður logndrífa um allt Suðurland síðdegis á morgun og vestur yfir Hellisheiði. Bakkinn nær síðan til Faxaflóa annað kvöld.“
Í færslunni kemur fram að staðbundið gæti snjóað talsvert mikið, eða allt að 30 sentímetra í lágsveitum Suðurlands og í Þrengslum, í kringum Selfoss og í Grímsnesi.
„Á höfuðborgarsvæðinu trúlega 10 sm annað kvöld og aðfaranótt sunnudags. Minna suður með sjó. Þessi spágildi gætu öll tekið breytingum síðar í dag,“ segir í færslunni.