

„Ég er norskur lakkrísunnandi. Hef alltaf verið það. Í sumar keyrði ég um Noreg og kom við í litlu þorpi í einum firði. Þar rakst ég á fatabúð sem ég ákvað að kíkja inn í. Verslunin var í eigu íslenskrar konu,” segir viðkomandi og bætir við að í versluninni hafi verið fullt af íslenskum fánum.
„Ég tók eftir því að hún seldi Bagsværd-lakkrís, svo ég ákvað að taka einn poka. Hún var líka með körfu fulla af íslensku nammi,” segir Norðmaðurinn sem kveðst hafa spurt verslunareigandann nánar út í það og hvað væri hennar uppáhalds sælgæti.
„Hún sagði mér að Bingó væri í uppáhaldi hjá sér: „Þetta er svo gott að þú missir alveg stjórn á þér þegar þú opnar pokann.“ Fyrsta hugsunin mín var: „Æ, svona gott getur það varla verið, en prófum.“
Norðmaðurinn segist hafa opnað pokann um kvöldið og svo fylgja með skemmtilegar lýsingar:
„G U Ð M I N N A L M Á T T U G U R. Þetta var enn betra en ég átti von á. Hvar hefur þetta verið allt mitt líf?! Daginn eftir fór ég aftur og keypti fjóra poka í viðbót. Síðan þá hef ég verið heltekinn af íslensku nammi. Ég elska líka Draum, sérstaklega þennan með „sterka“ lakkrísnum,” segir Norðmaðurinn og bætir við:
„Mig langar að fara til Íslands bara til að borða! Og borða! Fossar og eldfjöll skipta mig engu máli: ég vil lakkrís!”
Loks segir viðkomandi að hann ætli að baka lakkrístoppa í fyrsta sinn fyrir þessi jól og geti varla beðið. „Mig er búið að dreyma um þá stöðugt og get rétt ímyndað mér bragðið. Ég get ekki beðið eftir helginni því þá get ég borðað fleiri Bingó-kúlur.”
Færsla Norðmannsins vakti talsverða kátínu og gefa Íslendingar honum ráð um hvað hann ætti að prófa næst. „Bíddu bara þangað til þú ert búinn að prófa Þrist,” segir til dæmis einn.