
Mark Rutte, framkvæmdastjóri NATO, er hér á landi í vinnuheimsókn. Hann kemur hingað á óvissutímum fyrir NATO og á átakatímum í Evrópu. Af þessu tilefni fer Hilmar Þór Hilmarsson, prófessor við Háskólann á Akureyri, yfir horfur í heimsmálum eins og þau blasa við Evrópu. Hann telur framtíð Evrópu ekki vera sérstaklega bjarta þessa dagana, hvorki í efnahags- né öryggismálum.
„Eitt af því sem veikir stöðu NATO er að heimurinn er nú orðinn fjölpóla (e. multipolar) með a.m.k. þrjú stórveldi, Bandaríkin, Kína og Rússland. Fleiri ríki eiga eftir að rísa upp, t.d. Indland, en stórveldasamkeppnin í náinni framtíð verður samt hörðust á milli Bandaríkjanna og Kína.
Í fjölpóla heimi geta Bandaríkin ekki verið með sömu hernaðarviðveru í Evrópu og þegar heimurinn var einpóla, þ.e. frá 1991 þegar Sovétríkin féllu til ca. 2017, en þá verður Kína stærra hagkerfi en það bandaríska, mælt á jafnvirðisgengi. Bandaríkin nú geta einfaldlega ekki beitt sér eins í Evrópu í fjölpóla heimi þar sem þau þurfa að dreifa kröftunum á fleiri staði. Austur-Asía og Mið-Austurlönd, sérstaklega svæðið í kringum Persaflóann, eru nú mikilvægari fyrir Bandaríkin en Evrópa.
Annað sem hefur gerst að það er viss spenna á milli Evrópu og Bandaríkjanna vegna Úkraínustríðsins. Bandaríkin hafa verið viljugri til að semja við Rússland með málamiðlunum en Evrópa sem tekur harðari afstöðu. Þetta getur leitt til vaxandi deilna milli Bandaríkjanna og Evrópu sem veikir NATO samstarfið.
Til viðbótar við þetta vill Donald Trump forseti Bandaríkjanna velta kostnaðinum af vörnum í meira mæli á Evrópu sjálfa þar sem NATO ríki álfunnar eiga að greiða 5% af vergri landsframleiðslu til varnarmála. Ljóst er að mörg aðildarríkin munu eiga í miklum vandræðum með þetta. Trump hefur almennt litla trú á alþjóðastofnunum og vill að Bandaríkin beiti sér meira einhliða. Þegar hann bauð sig fyrst fram til forseta talaði hann um að NATO væri úrelt stofnun.“
Hilmar bendir á að þau lönd sem taka harðasta afstöðu til Rússlands varðandi lausn Úkraínu-stríðsins eigi landamæri að Rússlandi. Þau séu viðkvæm fyrir breytingum á landamærum Úkraínu:
„Þau lönd sem virðast taka harðasta afstöðu í samningum við Rússland um frið í Úkraínu eru Eystrasaltsríkin og Pólland. Öll þessi lönd eiga landamæri við Rússland. Eistland og Lettland austurlandamæri við Rússland og svo Litáen og Pólland við Kaliningrad, sem er hluti af Rússlandi. Allt tal um breytingar á landamærum Úkraínu er því afar viðkvæmt fyrir þau. Finnland, sem er nýlega gengið í NATO, á líka austurlandamæri að Rússlandi og Noregur, sem er eitt af stofnríkjum NATO, á norðurlandamæri við Rússland. Bæði löndin eru í viðkvæmri stöðu.
Nú ekki alls fyrir löngu lét Angela Merkel, fyrrum kanslari Þýskalands, hafa eftir sér í viðtali að Pólland og Eystrasaltsríkin hafi hafnað tillögu sinni um að aðildarríki ESB kæmu sér saman um nýtt fyrirkomulag fyrir samningaviðræður við Rússa árið 2021, þ.e. áður en Rússar réðust inn í landið í febrúar árið 2022. Þessi ummæli vöktu lítinn fögnuð í þessum löndum.
Í þessu samhengi má einnig geta þess að Eystrasaltsríkin og Pólland voru fylgjandi því á leiðtogafundi NATO í Búkarest í apríl 2008 að ályktað yrði að Úkraína yrði aðili að NATO. Angela Merkel, þá kanslari Þýskalands, og Nicolas Sarkozy, þá forseti Frakklands, voru hinsvegar andvíg þessu af ótta við viðbrögð Rússlands. Eftir 17 ár er Úkraína enn utan NATO og nú hefur Donald Trump sagt Úkraínu að gleyma NATO aðild.
Óljóst er hvaða árangri beinar samningaviðræður milli ESB og Rússlands hefðu skilað árið 2021, en ljóst má vera að almennt hafa Eystrasaltsríkin og Pólland haft litla trú á samningaviðræðum við Rússland. Eftir að innrás Rússlands hófst í Úkraínu töluðu mörg Evrópuríki NATO um að Úkraína gæti sigrað Rússland á vígvellinum, en nú snýst umræðan í ESB um vopnahlé á meðan Rússland vill friðarsamning með skilyrðum sem sérstaklega Úkraínu og flestum Evrópuríkjum NATO þykja óaðgengileg. Bandaríkin, sem ólíkt Evrópu eru í talsambandi við Rússland, reyna enn að miðlað málum.
Rússar hafa haldið því fram að NATO sé að umkringja sig. Hilmar fer yfir möguleg átök utan Úkraínu sem NATO gæti dregist inn í:
„Vegna Úkraínustríðsins og þeirrar spennu sem því fylgir gætu orðið frekari átök víðar Evrópu sem NATO gæti dregist inn í. Rússar líta svo á að verið sé að umkringja þá og um það nefni ég hér þrjú dæmi: Svartahafið, Eystrasaltið og Norðurslóðir.
Svartahafið. Úkraínustríðið snýst að verulegu leyti um yfirráð yfir Svartahafinu. Að Svartahafinu liggja Búlgaría, Georgía, Rúmenía, Rússland, Tyrkland og Úkraína. Búlgaría, Rúmenía og Tyrkland eru aðilar að NATO og á NATO fundinum fræga í Búkarest í apríl 2008 var talað um að Georgía og Úkraínu færu líka í NATO. Þá hefði Rússland orðið eina landið við Svartahafið sem ekki er í NATO.
Eystrasaltið. Danmörk, Finnland, Svíþjóð, Eistland, Lettland, Litáen, Pólland, Þýskaland og loks Rússland liggja að Eystrasaltinu. Af þessum níu löndum eru öll NATO ríki nema Rússland. Rússland hefur aðgang að Eystrasalti við St. Pétursborg, milli Finnlands og Eistlands og svo við Kaliningrad, sem er hluti af Rússlandi á milli Litáen og Póllands. Mikil spenna er nú í Eystrasaltinu.
Norðurslóðir. Mikilvægi norðurslóða fer vaxandi m.a. vegna loftslagsbreytinga. Siglingaleiðir eru að opnast og miklar auðlindir sem áður voru óaðgengilegar verða nú nýtanlegar. Í Norðurskautsráðinu eru átta ríki: Bandaríkin, Danmörk, Finnland, Ísland, Kanada, Noregur, Rússland og Svíþjóð. Öll ríkin eru nú NATO ríki nema Rússland. Þetta er ein ástæða þess að samvinna Rússlands og Kína er nú náin á þessu svæði.
Önnur líkleg átakasvæði eru Georgía, Moldóva og Hvíta-Rússland.“
Hilmar telur að horfur séu góðar varðandi öryggi Íslands þó að NATO-samstarfið veikist:
„Varðandi Ísland, sem er ekki á meginlandi Evrópu, en á milli meginlands Ameríku og meginlands Evrópu, þá þjónar það ekki öryggishagsmunum Bandaríkjanna að önnur stórveldi komi sér upp aðstöðu á Íslandi, t.d. með flotahöfn. Þess vegna held ég að tvíhliða varnarsamstarf Bandaríkjanna og Íslands geti haldið áfram þó staða NATO kunni að breytast ef stuðningur Bandaríkjanna við bandalagið minnkar eða ef Bandaríkin hverfa úr NATO.
Sögulega séð hefur Ísland aldrei átt í átökum við Rússland eða Sovétríkin eins og mörg lönd á meginlandi Evrópu. Ísland er stofnaðili að NATO frá 1949 og með tvíhliða varnarsamning við Bandaríkin síðan 1951. Samskipti Íslands við Bandaríkin hafa verið góð allan tímann þó ólíkar skoðanir hafi verið um framkvæmd varnarsamningsins, t.d. hvort á Íslandi eigi að vera fastur flugher eins og áður var. Ég tel að Ísland eigi nú fyrst og fremst að efla Landhelgisgæsluna til að auka eftirlit og öryggi á Norður-Atlantshafi sem væri mikilvægt framlag til NATO, sem þarf að styrkja sig á þessu svæði, en um leið er það hagsmunamál fyrir Ísland að gæta sinnar efnahagslögsögu betur á óvissutímum.“