fbpx
Miðvikudagur 26.nóvember 2025
Fréttir

Furðaði sig á kröfu Fjölmiðlanefndar í gær en deilurnar hófust fyrir fimm árum – „Eigum við ekki að róa okkur aðeins“

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 26. nóvember 2025 19:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fjölmiðlanefnd hefur farið fram á að Þórarinn Hjartarson skrái hlaðvarp sitt, Ein pæling, sem fjölmiðil. Þórarinn hefur furðað sig á kröfunni enda telur hann hlaðvarp sitt ekkert eiga skylt við starfsemi fjölmiðla. Frekar séu um að ræða upplesna skoðanapistla en fréttir.

Aðdáendur hlaðvarpsins hafa gagnrýnt kröfuna á samfélagsmiðlum og telja að þarna sé Fjölmiðlanefnd að reyna að stýra umræðu utan síns valdsviðs.

Þingmaður gagnrýnir kröfuna

Þingmaður Sjálfstæðisflokksins, Rósa Guðbjartsdóttir, vakti athygli á málinu á Alþingi í gær.

„Það má velta fyrir sér hvaða valdheimildir fjölmiðlanefnd hefur til slíks og hvaða hagsmuna eða erinda hún er að ganga og ekki síður má spyrja: Af hverju er ríkisvaldið að skipta sér af hlaðvörpum sem einstaklingar halda úti? Af hverju er hér eins konar stóri bróðir sem heimtar skráningu þeirra og sendir þeim svo reikninga? Hver er nauðsyn þess að reka slíka ríkisnefnd eða ríkisstofnun sem ætlar nú að elta uppi einstaklinga sem halda úti hlaðvörpum þar sem þeir eru að koma skoðunum sínum á framfæri?“

Rósa rakti að hlaðvörp væru nútímaleg og vinsæl leið til að tjá skoðanir og hugmyndir, en þetta væru ekki fjölmiðlar.

„Hvert erum við eiginlega komin, virðulegi forseti? Hvað með aðra sem nýta samfélagsmiðla í svipuðum tilgangi, t.d. áhrifavaldar sem svo sannarlega geta haft mikil áhrif á fjölmenna hópa? Eru þeir fjölmiðlar? Hvað með okkur sem einstaklinga sem notum jafnvel daglega samfélagsmiðla til að koma skoðunum okkar og sjónarmiðum á framfæri? Erum við, hvert og eitt okkar, að starfrækja fjölmiðil? Þurfum við kannski bráðlega að fá leyfi hjá hinu opinbera til að fá að tjá okkur í gegnum samfélagsmiðla? Við gátum lengi vel komist af án þess að hér á landi væri starfrækt fjölmiðlanefnd en fyrst hún er til með sérstakri stjórn og starfsmönnum væri ekki heppilegra að hún nýtti krafta sína og tíma í önnur mikilvægari mál? Eigum við ekki að róa okkur aðeins í eftirlitshlutverki ríkisins sem birtist orðið í sífellt fleiri málum?“

Barátta sem hófst fyrir fimm árum

Barátta Fjölmiðlanefndar við hlaðvörp hófst í rauninni fyrir fimm árum síðan og hefur verið umdeild.

Fjölmiðlanefnd birti árið 2021 leiðbeiningar um skráningu hlaðvarpa en nefndinni hafði þá borist fjöldi fyrirspurna, ábendinga og kvartana vegna auglýsinga í íslenskum hlaðvörpum sem vöktu spurningar um slíka starfsemi. Nefndin rakti að við mat á því hvort hlaðvarp sé skráningarskylt er litið til þess hvort það uppfylli skilyrði laga um fjölmiðla, þ.e. að miðla með reglubundnum hætti til almennings efni er lýtur ritstjórn.

Hlaðvörp teljast til hljóðmiðlunar í skilningi fjölmiðlalaga. Við mat á því hvort hlaðvarp sé skráningarskylt er meðal annars horft til þess hvort því sé miðlað í atvinnuskyni, áhrif þess á samkeppnismarkað, hvort boðið sé upp á áskrift, hvort þar sé að finna auglýsingar og fleira.

„Ef fjárhagslegur ávinningur er af miðlun hlaðvarps er það sterk vísbending um að skrá beri hlaðvarpið sem fjölmiðil hjá fjölmiðlanefnd. Nefndin metur þó alltaf hvert tilvik fyrir sig enda er hvorki hægt að sjá fyrir þau fjölmörgu atriði sem geta komið til greina við mat á því hvort um fjölmiðil er að ræða né þær nýju miðlunarleiðir og tegundir fjölmiðla sem framtíðin ber í skauti sér.“

Árið 2020 bað Fjölmiðlanefnd þrjá hlaðvarpsþætti að skrá sig formlega eftir ábendingar um ólöglegar auglýsingar. Árið 2021 sektaði nefndin Dr. Football um hálfa milljón fyrir að hafa auglýst áfengi í þætti og fyrir að hafa ekki svarað erindum nefndarinnar um að skrá fjölmiðilinn. Hlaðvörpin Steve Dagskrá og Fantasy Gandalf sluppu við sekt en fengu ákúrur fyrir veðmála- og áfengisauglýsingar.

Sjá einnig: Fjölmiðlanefnd sektar hlaðvörp sem fjölmiðla en gleymir að skrá sitt eigið hlaðvarp

Atlaga að tjáningarfrelsi

Í framhaldi af þessu skrifaði Þórarinn Hjartarson grein hjá Innherja þar sem hann mótmælti því að hlaðvörp séu talin til fjölmiðla.

„Hlaðvörp eru ekki fjölmiðlar. Að telja að svo sé lýsir því miður viðtekinni skoðun og viðhorfi ríkisins til fjölmiðla. Hlaðvörp eru líkari skoðanapistli heldur en fjölmiðli. Að kalla hlaðvörp fjölmiðil gerir því lítið úr fjölmiðlum og er atlaga að tjáningarfrelsi almennra borgara.“

Kallaði Þórarinn eftir því að nefndin endurskoðaði verkferla „í atlögu sinni gegn hlaðvörpum“.

Þórarinn fær jafnan til sín gesti í hlaðvarpið og býður upp á áskrift að tilteknu efni. Þar má líka finna auglýsingar en Ein pæling er með fjölda samstarfsaðila á borð við Bæjarins Bezty Pylsur, Fiskhúsið, heitirpottar.is, Poulsen, Happy Hydrate og fleiri. Samkvæmt leiðbeiningum Fjölmiðlanefndar ætti það því ekki að koma Þórarni á óvart að nefndin telji hlaðvarp hans vera fjölmiðil, alveg eins og það ætti ekki að koma nefndinni á óvart að Þórarinn er enn á sama máli og áður, að hlaðvörp séu ekki fjölmiðlar.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Þrjú ákærð í stóru fíkniefnamáli – Keyptu BMW til að smygla kókaíni

Þrjú ákærð í stóru fíkniefnamáli – Keyptu BMW til að smygla kókaíni
Fréttir
Í gær

Dóri DNA segist skilja faðmara undirheimana og orðheppni þeirra – „Þetta fer allt í gáma, gámar kjafta ekki“

Dóri DNA segist skilja faðmara undirheimana og orðheppni þeirra – „Þetta fer allt í gáma, gámar kjafta ekki“