

Fjölmiðlamaðurinn Bogi Ágústsson slapp við sekt eftir að hafa skilað eintaki af Kommúnistaávarpinu um hálfri öld of seint til Íþöku, bókasafns Menntaskólans í Reykjavík. Þetta kemur fram í skemmtilegri færslu á Facebook-síðu skólans.
Ávarpið, sem er Karl Marx og Friðrik Engels og var gefið út árið 1949, fékk Bogi að láni frá bókasafninu þegar hann stundaði nám við skólann á sínum tíma en gleymdi svo að skila eintakinu.
Bogi er nú um stundir stjórnarmaður í Hollvinafélagi skólans og nýtti því tækifærið á nýlegum stjórnarfundi til að bæta fyrir syndir sínar. Skilaði hann þar eintakinu í hendur Sólveigar Guðrúnar Hannesdóttur, rektor skólans, sem ákvað að fella sektina niður þó að Bogi hafi vissulega fengið ásakandi augnaráð að launum. Fram kemur að Hollvinafélagið standi nú fyrir söfnun í tilefni af 180 ára afmæli skólans á næsta ári en ætlunin er að styrkja ritun af næsta bindi af Sögu Reykjavíkurskóla.