fbpx
Miðvikudagur 26.nóvember 2025
Fréttir

Nágranna frá helvíti gert að flytja úr íbúð foreldra sinna – Tjón hleypur á milljónum króna

Ágúst Borgþór Sverrisson
Miðvikudaginn 26. nóvember 2025 10:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Húsfélag í ónefndu fjölbýlishúsi á höfuðborgarsvæðinu stefndi íbúa í húsinu fyrir Héraðsdóm Reykjaness og krafðist þess að honum yrði bönnuð búseta í húsinu. Umræddur íbúi er karlmaður sem hefur búið í íbúð sem foreldrar hans eiga í húsinu.

Dómur var kveðinn upp í málinu þann 17. nóvember síðastliðinn en í dómnum eru reifuð fjölmörg atvik þar sem íbúar í húsinu hafa orðið fyrir gífurlegu ónæði af hendi mannsins og skemmdarverk hafa verið unnin á lyftu og myndavélarkerfi hússins. Lögregla og sérsveit hafa verið kölluð á staðinn vegna ógnandi hegðunar mannsins og gesta hans, hann hefur reynt að brjótast inn í íbúðir nágranna sinna, hefur klifrað upp á bílana þeirra og kveikt eld í rusli í stigaganginum, svo fátt eitt sé nefnt, en sumir íbúarnir hafa séð sig knúna til að flytja tímabundið úr íbúðum sínum til að gæta eigin öryggis.

Í dómnum er meðal annars að finna eftirfarandi lýsingar:

„Í málinu liggur frammi bréf E, lögfræðings hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu, dags. 11. febrúar 2025, þar sem rakin eru afskipti lögreglu af stefnda á tímabilinu 19. júní 2022 til 4. febrúar 2025. Eru þar m.a. tilgreindar tilkynningar um að stefndi hafi hamast á hurð nágranna illa áttaður 2. júní 2023, sofið fyrir utan íbúð sína 15. júní 2023, öskrað fyrir utan húsið 5. júlí 2023, reynt að komast inn í íbúð nágranna 14. nóvember 2023 og unnið skemmdir á íbúð nágranna 9. ágúst 2023. Þá kemur fram að tilkynnt hafi verið um að stefndi hefði hringt dyrasímum stanslaust og klifrað utan á húsinu 5. ágúst 2024, að vinir hans hafi reynt að brjótast inn hjá nágranna 9. ágúst 2024, að stefndi hafi brotið og kastað til munum í íbúð sinni með tilheyrandi hávaða 14. október 2024 og að hann hafi verið öskrandi og klifrandi upp á bifreiðar nágranna á bílastæði til þess að komast inn í sameign 16. október 2024. Loks hafi verið tilkynnt um að hann reyndi að komast inn í vitlausa íbúð 16. nóvember 2024. Sama dag hafi hann brotið gler í glugga við útidyrahurð að íbúð hans og skemmt hurðina. Í bréfinu er einnig vísað til tilkynningar um öskur, dynki og „kvalastunur“ frá íbúð stefnda 2. desember 2024, mikinn hávaða og öskur 19. janúar 2025 og drasl sem fleygt var ofan af svölum íbúðar stefnda sama dag. Loks eru í bréfinu raktar ítrekaðar tilkynningar stefnda sjálfs til lögreglu vegna manna sem hann kvaðst hræddur við og taldi reyna að komast inn til sín.“

Gróf og ítrekuð brot heimila brottflutning

Hinn stefndi mætti ekki við réttarhöldin og dæmdi dómari því eftir málflutningi húsfélagsins og framkomnum gögnum í málinu. Maðurinn var talinn hafa brotið 55. gr. laga um fjöleignarhús en í 1. málsgrein hennar segir:

„Gerist eigandi, annar íbúi húss eða afnotahafi sekur um gróf eða ítrekuð brot á skyldum sínum gagnvart húsfélaginu eða eigendum, einum eða fleirum, þá getur húsfélagið með ákvörðun skv. 6. tölul. B-liðar 41. gr. lagt bann við búsetu og dvöl hins brotlega í húsinu, gert honum að flytja og krafist þess að hann selji eignarhluta sinn.“

Í niðurstöðu dómsins kom meðal annars fram að viðgerðarkostnaður vegna skemmdarverka íbúans hlaupi á mörgum milljónum króna. Eru þetta skemmdarverk á lyftu, myndeftirlitskerfi, póstkössum og á bílum annarra íbúa, og er þá ekki allt nefnt til. Auk þess kemur fram að fíkniefnaviðskipti hafa farið fram í íbúð mannsins og mikill sóðaskapur hefur verið í sameigninni frá manninum, meðal annars legið þar nikótínpúðar og ruslapokar eftir hann.

Útköll lögregla (og stundum sérsveitar) vegna framferðis mannsins eru yfir 40 frá árinu 2022. Ásakanir húsfélagsins fá stoð í gögnum frá lögreglu sem kallað var eftir fyrir dóminn.

Niðurstaða Héraðsdóms Reykjaness í málinu er skýr: Manninum er bönnuð búseta í íbúðinni og gert skylt að flytja úr henni innan eins mánaðar frá uppkvaðningu dómsins. Hann á jafnframt að greiða 680 þúsund krónur í málskostnað.

Dóminn má lesa hér.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Lögmaður í haldi á Hólmsheiði vegna gruns um skipulagða glæpastarfsemi

Lögmaður í haldi á Hólmsheiði vegna gruns um skipulagða glæpastarfsemi
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Íbúi í miðbænum segir Reykjavíkurborg hafa sig fyrir rangri sök

Íbúi í miðbænum segir Reykjavíkurborg hafa sig fyrir rangri sök
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ógnvekjandi spenna í samskiptum Kína og Japan – Óttast að stríðsátök geti brotist út

Ógnvekjandi spenna í samskiptum Kína og Japan – Óttast að stríðsátök geti brotist út
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ráðuneyti Guðmundar Inga í stríði við Morgunblaðið – Fréttaflutningur gagnrýndur harðlega

Ráðuneyti Guðmundar Inga í stríði við Morgunblaðið – Fréttaflutningur gagnrýndur harðlega