

Í tilefni Evrópsku nýtnivikunnar, sem fer fram nú í vikunni, kallar Borgarbókasafnið Gerðubergi eftir gleymdum garnafgöngum, hálfkláruðum garnverkefnum, gömlum prjónaflíkum og öllu því sem tengist handavinnu en vantar nýtt heimili!
Koma má með efni á bókasafnið og í Fríbúðina Gerðubergi.
Í lok vikunnar, nánar tiltekið 29. nóvember, verður svo sannkallaðri prjónaveislu slegið upp á bókasafninu, þar sem gestir og gangandi geta gripið í gómsæta garnhnykla og fundið nýjar, skapandi leiðir til að tengja saman alla þræði í skemmtilegum verkefnum.
Besti barinn í bænum, Textílbarinn, mætir á svæðið, segir frá starfsemi sinni og verður með ýmislegt spennandi á boðstólum sem hægt er að njóta á aðventunni. Nýjustu handavinnubækurnar verða til sýnis og heitt kaffi á könnunni fyrir þau sem vilja njóta notalegrar stundar í góðum félagsskap.
Öll hjartanlega velkomin!
Viðburðurinn er hluti af alþjóðlega verkefninu Make-a-thek sem Borgarbókasafnið Gerðubergi tekur þátt í til næstu þriggja ára. Markmið verkefnisins er að skapa vettvang fyrir skapandi og framsækna notendur, svokallaða prosumers, þar sem þátttakendur deila þekkingu og reynslu, kynnast alls kyns handverki og læra nýjar aðferðir til dæmis við að gera við textíl. Make-a-thek er styrkt af Evrópusambandinu.
Nánari upplýsingar áwww.borgarbokasafn.is