
Erik, 15 ára sonur Hildar Friðriks, er listræn sál. Hann elskar leiklist, myndlist og tónlist. Hann semur lög, teiknimyndasögur og stuttmyndir, hann elskar að skapa, segir móðir hans.
En Erik er líka með ADHD, hann er misþroska og með málþroskaröskun, mótþróaröskun og genagalla. Erik langar mikið til að eignast góða vini en það hefur ekki tekist, vegna skertrar samskiptahæfni hans. Hildur, móðir Eriks, hefur gert sitt besta til að hjálpa drengnum sínum að vera sterkur og innprenta honum þá hugsun að öll eigum við að fá að vera við sjálf.
En mæðginin mæta miklu mótlæti. Hildur segir frá þessu í Facebook-færslu:
„Hann hefur lent i allskonar árásum líkamlega og andlega, ég hef þurft að taka af honum samsklptamiðla sem ég fylgist með og símann, vegna ógeðslegra skilaboða sem hafa hrætt hann það mikið að hann hefur hringt i neyðarlínuna. Núna er hann komin i 10.bekk, komin i nýjan skóla sem á að mæta honum betur sem hann vissulega gerir, enn þessir krakkar hætta aldrei, þeir finna leiðir til að segja honum,, “að láta sig hverfa” “dreptu þig” “skiljanlegt að engin vill vera vinur þinn” “barnaperri” (því hann leikur við yngri frændsystkin) “hættu að gefa öllum kjánahroll” “það vill engin koma nálægt þér” “þú átt ekki heima hér” “myndir gera heiminum greiða með því að deyja”, krakkar hafa platað hann út á opið hús/ball honum langar svo að prófa það einungis til að hlægja gera grín og vera vond, alltaf er hann komin heim eftir 5 mín.“
Mæðginin búa á Akureyri og eins og hér hefur komið fram hefur Erik mætt miklu mótlæti út af fötlun sinni. „Að finna neistann slokkna í barninu mínu er það hræðilegasta sem ég hef upplifað,“ segir Hildur í samtali við DV. Hún stígur fram með sögu Eriks því hún vill vekja ungmenni til umhugsunar um rétt allra til að vera þau sjálf.
Ofbeldið sem Erik hefur orðið fyrir af hendi jafnaldra sinna hefur ýtt honum inn í skelina og lamað sköpunargleðina. „Hann er bara brotinn í dag,“ segir Hildur. „Hann er bara hættur að vilja teikna, syngja og leika, en ég er að reyna að kveikja aftur í sköpunargáfunni hans.“
Hún vill koma þeim boðskap á framfæri við ungt fólk að allir eigi sér sinn tilverurétt. „Hann hefur alltaf verið óhræddur við að vera hann sjálfur, elskar tónlistarfólk og er óhræddur við að biðja það um selfie. Núna er búið að koma því þannig fyrir að hann skammast sín fyrir að vera hann sjálfur út af drulli frá öðrum krökkum,“ segir Hildur og biður unglingana um að hugsa sinn gang og foreldra um að ræða við börnin sín um virðingu fyrir öðrum manneskjum.