

Síldarvinnslan hf hefur ákveðið að loka fiskimjölsverksmiðju fyrirtækisins á Seyðisfirði. Í tilkynningu frá Síldarvinnslunni segir að rekstrarumhverfi fyrir vinnslu fiskimjölds og lýsis hafi versnað hratt undanfarin misseri.
Inn í ákvörðunina spilar einnig að húsnæði Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði er á skilgreindu hættusvæði vegna hættu á skriðuföllum og snjóflóðum.
Fréttatilkynning um málið er eftirfarandi:
„Síldarvinnslan hf. hefur ákveðið að loka fiskmjölsverksmiðju fyrirtækisins á Seyðisfirði. Rekstrarumhverfi verksmiðja sem vinna fiskmjöl og – lýsi hefur versnað hratt undanfarin misseri.
Veiðiheimildir uppsjávartegunda hafa dregist saman og hærra hlutfall af því sem veitt er fer til manneldisvinnslu. Þá hefur Alþjóðahafrannsóknarráðið (ICES) lagt til að veiði á kolmunna, sem hefur verið uppistaðan í vinnslunni á Seyðisfirði, verði 40 prósent minni á næsta ári. Þessu til viðbótar hafa hækkanir á kostnaðarliðum og auknar opinberar álögur á sjávarútvegsfyrirtæki ýtt undir ákvarðanir sem krefjast meiri hagræðingar í rekstri.
Húsnæði Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði er auk þess á skilgreindu hættusvæði vegna hættu á skriðuföllum og snjóflóðum. Svæðið er ekki á framkvæmdaáætlun Ofanflóðasjóðs um varnir næsta áratuginn samkvæmt svari Ofanflóðanefndar til félagsins. Það er því ekki síður með öryggi starfsmanna að leiðarljósi að ekki gengur að vera með starfsemi á svæðinu.
Í ljósi ofangreinds tók stjórn Síldarvinnslunnar hf. ákvörðun um að hætta rekstri fiskmjölsvinnslunnar á Seyðisfirði. Farið verður í að selja búnað úr verksmiðjunni og ganga frá svæðum í samráði við bæjaryfirvöld.
Tólf starfsmenn missa vinnuna ásamt verktökum. Uppsagnarfrestur var lengdur um einn mánuð og nemur fjórum mánuðum. Að auki býður Síldarvinnslan þeim sem kjósa vertíðarbundna vinnu í fiskiðjuveri félagsins í Neskaupstað.
Síldarvinnslan sammæltist með forsvarsmönnum Múlaþings um ráðningu ráðgjafa sem ynni með sveitarstjórn næstu tólf mánuði, við að fara yfir viðskiptahugmyndir um framtíðarstarfsemi í húsum félagsins. Síldarvinnslan greiðir kostnað við störf ráðgjafans, en fulltrúar sveitarfélagsins fara fyrir vinnunni.
„Fjölmargt í rekstrarumhverfinu hefur raðast þannig upp síðustu ár að nauðsynlegt er að taka þessa ákvörðun. Hún er engu að síður þungbær enda tekin eftir ítarlega yfirlegu um framtíð starfseminnar á Seyðisfirði. Við bindum vonir við að samvinnan við sveitarfélagið skapi ný tækifæri fyrir svæðið,“ segir Gunnþór Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar.“