fbpx
Laugardagur 22.nóvember 2025
Fréttir

Mörgum Sandgerðingum misboðið vegna sölu á gamla Kaupfélagshúsinu – Frænka formanns bæjarráðs keypti

Ragna Gestsdóttir
Laugardaginn 22. nóvember 2025 10:55

Gamla Kaupfélagshúsið að Víkurbraut 11 í Sandgerði.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í vikunni var greint frá því að  bæjarstjórn Suðurnesjabæjar hefði gengið frá sölu á  gamla Kaupfélagshúsinu í Sandgerði, Víkurbraut 11. Húsið hafði staðið autt um árabil og voru uppi hugmyndir um að rífa húsið. Kostnaður við þá aðgerð hafði verið metinn 8 milljónir krónir.

Óvænt tilboð frá áhugasömum kaupanda upp á tvær milljónir varð hins vegar til þess að bæjarstjórn ákvað að selja húsið umræddum kaupanda.

Eftir að kaupin voru gengin í gegn hafa hins vegar blossað upp óánægjuraddir. Meðal annars í íbúahópi á Facebook þar sem margir finna sveitarfélaginu allt til foráttu. Meðal annars er hneykslast yfir því að húsið hafi aldrei verið auglýst til sölu. Þá hafi annar aðili lýst yfir áhuga á að leggja fram tilboð í húsið en ekki fengið tækifæri til þess og salan keyrð í gegn.

Ennfremur eru sett spurningamerki við náin ættartengsl milli kaupanda fasteignarinnar og formanns bæjarráðs en sá síðarnefndi vék ekki af þeim fundum þegar málið var tekið fyrir.

Systrabörn

Kauptilboð var samþykkt á fundi bæjarráðs 10. september 2025. Kaupandinn að eigninni er fyrirtækið I-stay ehf, eigendur þess eru Hjördís Ósk Hjartardóttir og Jónas Ingason, sem eiga 50% hvort samkvæmt fyrirtækjaskrá. Jónas er skráður stjórnarformaður.

Formaður bæjarráðs og oddviti Samfylkingarinnar er Sigursveinn Bjarni Jónsson. Hann og Hjördís Ósk sem er annar eiganda kaupanda hússins eru systrabörn. Eftir því sem gögn sýna þá sagði Sigursveinn sig aldrei frá aðkomu málsins eða upplýsti um tengsl sín við væntanlegan kaupanda á fundum bæjarráðs.

Í svari frá Suðurnesjabæ við fyrirspurn DV kemur fram að samkvæmt reglum bæjarins um skyldleikavanhæfi séu áðurnefnd tengsl ekki það náin  að Sigursveinn hafi þurft að segja sig frá málinu.

Vikið frá meginreglu því húsið hafi sérstöðu

Í svarinu kemur einnig fram að meginregla sveitarfélagsins sé að auglýsa eignir sveitarfélagsins til sölu. Víkurbraut 11 hafi hinsvegar umtalsverða sérstöðu, ekki síst vegna slæms ástands hússins, meðal annars vegna vatnsskemmda.

Húsið var ekki talið hafa notagildi fyrir sveitarfélagið og engir líklegir kaupendur höfðu gefið sig fram þrátt fyrir að húsið stæði autt í mörg ár. Allt stefndi því í að húsið yrði rifið. Undirbúningur niðurrifs var hafinn og liggur fyrir að minnsta kosti gróf kostnaðaráætlun um útgjöld sveitarfélagsins vegna þess. En þegar óvænt barst tilboð í húsið, sem sveitarfélagið mat trúverðugt, þótti tilefni til að skoða það,“ segir í skriflegu svari frá Magnúsi Stefánssyni, bæjarstjóra.

Engar kvaðir á kaupanda

Þá hafi áform kaupenda um viðgerð á húsinu og nýtingu þess fyrir atvinnustarfsemi þótt falla vel að áherslum Suðurnesjabæjar í skipulags- og atvinnumálum.

Ávinningur sveitarfélagsins af því að selja húsið og sleppa jafnframt við umtalsverðan niðurrifskostnað þótti augljós og jafnframt er mikilvægur þáttur í ákvörðun um söluna að húsið verður ekki lengur lýti heldur prýði,“ segir í svarinu.

Óánægðir bæjarbúar hafa hins vegar bent á það að engar kvaðir er að finna í kaupsamningnum um að ákveðin atvinnustarfsemi verði starfrækt í húsinu. Um það segir í svarinu:

Það hefði vissulega verið mögulegt. En eins og fram kemur í erindi DV er viðgerð þegar hafin og engar vísbendingar eru um að kaupendur séu ekki verðugir þess trausts sem þeim var sýnt í söluferlinu.“

Vissu ekki af áhuga annarra á eigninni

Þegar söluferlið var farið af stað steig fram annar kaupandi sem hafði áhuga á því að bjóða í eignina. Athygli DV var vakin á því að á fundi bæjarstjórnar þann 7. október, þar sem rætt var um þá ákvörðun bæjarráðs að samþykkja kauptilboð í fasteignina, óskaði Magnús Sigfús Magnússon, óháður bæjarfulltrúi eftir því að lesa upp bréf sem bæjarráði barst og segir að honum hafi áskotnast bréfið. Á upptöku fundarins sést að Magnús er kallaður til hliðar og kemur síðan aftur í pontu og segir að eftir samtal við forseta þurfi hann heimild frá bréfritara til að lesa bréfið upp í heild.

„En þar kemur fram efnislega að hann er að áminna bæði starfsmenn bæjarins og afgreiðsluna að hann hafi ekki fengið að bjóða í viðkomandi eign. Og ef það er staðreyndin, ég sá til dæmis uppfært minnisblað, þá er tekið afgerandi í minnisblaðinu afstaða til þess að það skuli bara afhenda einum einstaklingi þessa eign og lagt til að það sé samþykkt. En það kemur hvergi fram að aðrir hafi verið að bjóða í þetta. Og sjálfsagt hefur það ekki verið af því miðað við það sem kemur fram í þessu bréfi þá er einstaklingurinn að tala um að hann hafi ekki fengið að bjóða í. Og mér finnst það ámælisvert og segi bara eins og er, mér finnst það algerlega röng aðferðafræði.“

Bæjarstjórinn Magnús Stefánsson tekur til máls og rifjar upp að til hafi staðið að rífa eignina. Til bæjarráðs hafi komið minnisblað um að tiltekinn aðili hafi óskað eftir að kaupa eignina. Óskað hafi verið eftir frekari upplýsingum um málið sem hafi verið lagðar fram.

„Ég veit að bæjarráð, þeir sem sátu fundinn og þar á meðal ég, vissu ekki að einhverjar fyrirspurnir hefðu borist. Það lá fyrir kauptilboð, eitt, og það var niðurstaðan að samþykkja það. Svo komu þessar athugasemdir fram sem er rétt. Og það er auðvitað óheppilegt ég skal bara segja það. Það lá ekki fyrir vitneskja þegar þetta mál var tekið fyrir hjá bæjarráði og ég get tekið undir með nafna mínum að það er óheppilegt. En þessi eign var ekki ætluð til sölu það liggur fyrir. Það kom þarna aðili sem óskaði eftir að fá keypt og lagði fram tilboð. Þannig liggur það.“

Anton Guðmundsson oddviti Framsóknarflokksins tók einnig til máls undir þessum lið og sagðist hafa samþykkt söluna. En málið snúist ekki um söluna heldur vinnubrögðin, ekki hafi verið gætt að jafnræðisreglunni. „Það liggur fyrir að það voru aðrir aðilar með augastað á húsinu.“ Spyr hann af hverju það gerist að annar aðilinn af tveimur fái að senda inn tilboð en ekki hinn. Þeir sem sátu bæjarráðsfundinn hafi ekki haft hugmynd um að tveir vildu kaupa húsið. Þetta sé mál sem læra þurfi af í framtíðinni.

Horfa má á fund bæjarstjórnar hér fyrir neðan, umræðan um Kaupfélagshúsið hefst á mínútu 19.

Óttuðust skaðabótaábyrgð

Í títtnefndu skriflegu svari við fyrirspurn DV kemur fram að ótti við mögulega skaðabótarábyrgð hafi verið ástæða þess að öðrum kaupendum var ekki hleypt að borðinu.

Þegar annar aðili gaf sig fram, sem einnig lýsti áhuga á að kaupa húsið án þess þó að tilboð hafi legið fyrir né áform um nýtingu hússins frá þessum aðila, ákvað sveitarfélagið að skoða málið betur. Eftir að hafa leitað lögfræðiráðgjafar taldi sveitarfélagið þó að rétt væri að halda áfram með það söluferli sem þegar var hafið enda hafði bærinn þá þegar samþykkt fyrirliggjandi kauptilboð. Það hefði mögulega valdið sveitarfélaginu skaðabótaábyrgð að falla frá sölunni á þeim tímapunkti.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Kristrún ræddi kísilmálmtollana við Ursulu von der Leyen – „Sértækt tilvik og ekki fordæmisgefandi“

Kristrún ræddi kísilmálmtollana við Ursulu von der Leyen – „Sértækt tilvik og ekki fordæmisgefandi“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Eik nýr styrktaraðili FKA

Eik nýr styrktaraðili FKA