fbpx
Fimmtudagur 20.nóvember 2025
Fréttir

Óli rís til varnar gegn skrifum um munaðarleysingjaheimili hans – „Ég hef heyrt nóg til að vera sármóðgaður“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Fimmtudaginn 20. nóvember 2025 19:00

Ólafur Halldórsson. Skjáskot úr hlaðvarpi Sölva Tryggvasonar.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ólafur Halldórsson, gjarnan kallaður Óli Halldórs, stofnandi félagsins Björt sýn, sem rekur munaðarleysingjaheimili og skóla í Kenýa í Afríku, er sármóðgaður vegna lýsinga sem finna má á starfsemi hans í nýútkominni bók, Mzungu, eftir Þórunni Rakel Gylfadóttur og Simon Okoth Aora.

DV greindi frá efni bókarinnar fyrr í vikunni:

Bók lýsir illum aðbúnaði barna og starfsfólks á íslensku munaðarleysingjaheimili í Kenýa – „Hrein og klár lygi“

Bókin hefur á sér yfirbragð skáldsögu og nöfnum þeirra sem virðast vera fyrirmyndir persóna bókarinnar hefur verið breytt, en bókin hefur fremur verið kynnt sem sannsöguleg frásögn en skáldsaga. Í bókinni er farið ófögrum orðum um rekstur Óla á heimilinu og hann, eða persónan Skúli, vændur um um illa meðferð á bæði starfsfólki heimilisins og börnum sem þar dveljast; ekki síður beinast þær ásakanir gegn kenýskri eiginkonu Skúla.

Aðalpersóna bókarinnar, Hulda, er miðaldra kona, sem hefur stutt við rekstur umrædds heimilis og er komin þangað ásamt tveimur manneskjum öðrum til að verða að frekara liði í starfseminni, en helsta kappsmál hennar er að styðja ungar, heimilislausar mæður til mennta.

Heimilinu stýrir Íslendingurinn Skúli ásamt kenýskri eiginkonu sinni, Eveline, en Skúli þessi á raunar aðra eiginkonu á Íslandi. Heimilið virðist í fyrstu rekið af miklum krafti, kærleika og rausnarskap, en smám saman fara að renna tvær grímur á Huldu er hún verður áskynja um ýmislegt sem bláfátækt starfsfólk heimilisins og börnin sem þar eru vistuð þurfa að þola.

Kemur í ljós að starfsfólkið vinnur alla sjö daga vikunnar í um 16 klukkustundir á dag og það hýrist í illa förnu húsnæði. Börnin eru barin með priki, jafnvel þau yngstu. Meðal starfsfólks eru þrjár ungar mæður, hverra börn eru vistuð á heimilinu og þær fá nánast aldrei að hitta börnin sín.

Í bókinni kemur fram að forsvarsfólk heimilisins er duglegt að safna fé með því að vekja samúð með nauðstöddum börnum og birta jákvæðar myndir af uppákomum sem tengjast starfinu. Smám saman rennur upp fyrir Huldu að á bak við framhlið mannúðar og hjálpsemi leynist myrkur veruleiki misnotkunar, arðráns, vinnuþrælkunar og ofbeldis.

Áður en yfir lýkur sýður upp úr á milli Huldu og þeirra Skúla og Eveline og reyna þau síðarnefndu að koma henni undir lás og slá með fráleitum kærum til spilltrar staðarlögreglu. Er það afleiðing af viðleitni Huldu til að frelsa ungar mæður af heimilinu og koma þeim til mennta.

„Algjörlega andstæðan við raunveruleikann hér“

Ólafur tekur til varna í pistli á Facebook-síðu Bjartrar sýnar. Rifjar hann upp dvöl bókarhöfundar, Þórunnar, á heimilinu fyrir tveimur árum. Segir hann starfsfólk hafa logið Þórunni fulla og hún hafi í einhvers konar paranojukasti farið að sjá afrískar löggur í hverju horni. Einnig staðfestir Ólafur, að meðhöfundur Þórunnar að bókinni, Simon Okoth Aora, starfaði fyrir hann sem bókari heimilisins. Hann segir jafnframt að Þórunn hafi ætlað að starfa á heimilinu í um mánuð en hafi fljótt misst athyglina á börnunum en gert sér dælt við starfsfólk sem hafi logið hana fulla.

Pistill Óla er eftirfarandi í heild sinni:

„Af gefnu tilefni langar mig til að segja aðeins frá rekstri Takk heimilisins. Við byrjuðum reksturinn fyrir um 6 árum, með fáein börn, sem höfðu verið undir mínum verndarvæng í tvö ár á undan. Ég hef reglulega sagt frá starfinu á FB síðu Bjartrar sýnar, frá byrjun og verið einlægur, gegnsær og heiðarlegur. Daglegur rekstur er að miklu leiti fjármagnaður með því sem lesendur þeirra pistla leggja inná reikning heimilisins. Ég kem aldrei nálægt þeim peningum sjálfur, að öðru leiti en að fylgjast með hvert þeir fara. Heimilinu hefur hægt en bítandi vaxið fiskur um hrygg. Nú erum við með 42 börn á heimilinu, flest munaðarlaus og fáein með foreldra sem ekki drífa mjög langt. Ein aðal áskorunin hefur verið að finna barngott starfsfólk og það hefur oft verið mikið drama í kringum það. Lengi hafði ég varla við að reka og ráða, fyrir barsmíðar á börnunum, hnupl, og alls kyns svik og pretti. En nú hefur flest starfsólkið verið nokkuð lengi með okkur og nokkrir af þeim eru aldir upp á heimilinu. Allt starfsfólkið er með vel yfir lágmarkslaunum hér um slóðir, þeir fá bónusa þegar við getum, föt og fleira. Þeir búa líka flestir á heimilinu, þeim að kostnaðarlausu.

Nú er mér sagt að á Fróni sé komin út bók, um munaðarleysingja heimili í Keníu. Þar er persónu minni lýst af nàkvæmni, sem forspakka heimilisins. En svo kemur òfögur lýsing á starfsemi heimilisins, sem er eiginlega algerlega andstæðan við raunveruleikann hér á bæ.

Fyrir tveimur árum kom kona í heimsókn, ásamt unglingsstrák og annarri konu (sem dvaldi hér lengur og hefur heldur betur aðra sögu að segja). Hún ætlaði að vera sjálfboðaliði í mánuð, eða tvo, en dvaldi bara á heimilinu örfáa daga. Hún missti samstundis allan fókus á börnunum, en fór að leika sér með starfsfólki, sem lugu hana fulla. Hún fór síðan með bókhaldara heimilisins og þremur starfsstúlkum, sem hún lofaði gulli og grænum skógum. Við rifumst dálítið í lokin og hún sagði mér að hún hefði ekki sagt sitt síðasta orð. En það er sem sagt heil bók.

Ég hef ekki lesið bókina sem er samstarfsverkefni hennar og bókarans, en ég hef heyrt nóg til að vera sármóðgaður.

Starfsemi Takk heimilisins er mjög gagnsæ, yfirvöld hafa komið margsinnis í heimsókn, skoðað allt í krók og kima og aldrei haft útá neitt mikilvægt að setja. Það hefur komið fjöldi íslendinga í heimsókn, bæði fyrir og eftir þessa heimsókn. Þeir hafa flestir stoppað lengur og kynnst heimilinu miklu betur en þessi kona og ég kalla þau til vitnis. Og þá sem vonandi eiga eftir að koma.

En mig er farið að langa til að skrifa smásögu um miðaldra, frústrereraða skáldkonu, sjálfumglaðan besservisser, sem kemur í fátækt hérað í Afríku og fær kúltúrsjokk . Hún fer í einhvernskonar paranojukast, lætur ljúga sig fulla og fer að sjá afrískar löggur á hverju horni og allir eru með i samsærinu, nema einhverjir sem hún bjargar úr þrældómi. Hún reyndi aldrei að komast að neinum sannleika og byrjaði að prjóna skáldsögu daginn sem hún kom……Og nú segi ég eins og hún, þetta er ekki mitt síðasta orð, það kemur meira skömmu síðar. Viðtöl við starfsfólk, börn, fyrrverandi starfsfólk og einhver yfirvöld.

Annars gengur allt vel á Takk heimilinu. Það er nóg að gera í fríinu og börnin blómstra. Nú er ég bara að vona að einhverjir óháðir, ábyrgir aðilar komi hér í heimsókn frá Íslandi og taki út starfsemi Takk heimilisins.

P.S. Það versta er að með því taka til varnar er ég að auglýsa þessa fjandans bók. En hvað annað get ég gert?“

Segir bókina vera huglausan róg

Nokkrir hafa komið Óla og starfsemi hans til varnar, þar á meðal Sigurður nokkur Ingólfsson, sem lýsir í löngu máli, góðum kynnum af starfsemi Óla Halldórs og Bjartrar sýnar. Sigurður sakar bókarhöfunda um hugleysi og rógburð en í pistli hans segir meðal annars:

„Sannleikurinn er reyndar bara sá að Afríka er harður heimur og þar er ekki öllum gefið að komast af og ávinna sér virðingu heimamanna. Óli hefur gert það. Hann nýtur verðskuldaðrar ástar og hylli barna hinnar myrku heimsálfu ungra sem aldinna sem til hans þekkja, því hann hefur gefið sig í það af öllu hjarta og einnig mikilli fagmennsku. Óli getur þetta, því hann hefur varið mörgum áratugum við aðstæður sem líkjast aðstæðum sunnan Sahara og alltaf deilt kjörum með fátæku ómenntuðu fólki, lært tungumál þess og komið fram við það sem jafningja.

Margir falla í þá gryfju sem kallast White Savior Syndrome. Langar að hjálpa en getur ekki stigið niður af stalli sínum til fólksins og finna að hjartagæska þess nær ekki til þeirra sem hún á að bjarga. Slíkir einstakliingar geta fyllst öfund í garð manna eins og Óla, sem hreyfa sig í heimi örbirgðar eins og fiskar í vatni og er fyllilega eðlislægt að deila kjörum heimamanna og tala þeirra mál og þeirra máli.

Það er sjokk að koma til Afríku og eðlilegt að fólk fyllist þrá til þess að bæta kjör heimamanna. En fáir ná árangri sem stenst nokkurn samanburð við það sem Óli hefur gert. Það er skiljanlegt að það sé erfitt fyrir þá einstaklinga að horfa á það hversu vel Óli nær til fólksins og hversu vel honum gengur að afla sér samstarfsaðila og skapa stöðugleika og öryggi fyir börnin. Það er erfitt að sjá fyrir sér hvaða hvaða hvatir gæti legið að baki þeim rætna og huglausa rógi sem virðist vera að finna í fyrrnefndri bók, aðrar en öfund. Huglaust vegna þess að þetta er kallað skáldsaga og ekki einmu sinni viðurkennt að það er verið að gera atlögu að mannorði nafngreinda einstaklinga. Ég hef nú tilhneigingu til að vera að eins langorðari en Óli, en kannski voru hans eigin viðbrögð bara best: „Þetta er allt haugalýgi!““

Þórunn hugleiðir andsvör

Er DV leitaði eftir svörum hjá Þórdísi um sanngildi bókarinnar, fyrr í vikunni, sagðist hún enn sem komið er aðeins vilja ræða um verkið á bókmenntalegum nótum. Er DV bar í dag undir hana þau skrif sem hér er vitnað til sagðist hún íhuga andsvör en gat ekki sagt til um hvort og hvenær þau birtast.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Krafðist afhendingar gagna frá tíð Sigmundar Davíðs sem forsætisráðherra – Báru við þjóðaröryggi

Krafðist afhendingar gagna frá tíð Sigmundar Davíðs sem forsætisráðherra – Báru við þjóðaröryggi
Fréttir
Í gær

Segir hótelvæðinguna í Reykjavík hafa skaðleg áhrif – „Tekur ekkert tillit til þeirra sem þar eiga heimili“

Segir hótelvæðinguna í Reykjavík hafa skaðleg áhrif – „Tekur ekkert tillit til þeirra sem þar eiga heimili“
Fréttir
Í gær

Styrktarféð verður notað til að endurnýja búnað og tæki 

Styrktarféð verður notað til að endurnýja búnað og tæki 
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sjö útköll hjá lögreglu í dag út af búðahnupli

Sjö útköll hjá lögreglu í dag út af búðahnupli
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Segir þetta bestu fjárfestingu einstaklinga – „Þá fer þetta á autopilot“

Segir þetta bestu fjárfestingu einstaklinga – „Þá fer þetta á autopilot“