

Þúsundir fulltrúa frá yfir hundrað löndum eru á ráðstefnunni og kröfðust mótmælendurnir þess að fá aðgang að ráðstefnusalnum.
Til átaka kom á milli öryggisvarða og mótmælenda og segist blaðamaður Reuters sem var á vettvangi hafa séð þegar einn öryggisvörður var fluttur burt í hjólastól. Annar hafi verið með skurð fyrir ofan auga eftir að hafa verið laminn með barefli.
Öryggisverðir voru fljótir að ná stjórn á aðstæðum og tókst þeim að tvístra hópnum. Fulltrúum á ráðstefnunni var leyft að yfirgefa svæðið skömmu eftir uppákomuna.
Luiz Inácio Lula da Silva, forseti Brasilíu, hefur lagt áherslu á að frumbyggjasamfélög á svæðinu fái að gegna lykilhlutverki í samningaviðræðum á COP30 í ár.
Fyrr í vikunni komu tugir frumbyggjaleiðtoga á bátum til að taka þátt í viðræðunum og krefjast meiri áhrifa í stjórnun skóglendis á svæðinu. Sagði þekktur leiðtogi frumbyggja við Reuters að margir úr samfélögum þeirra væru ósáttir við áframhaldandi iðnaðar- og þróunarverkefni í Amazon-skóginum.