Íþróttalýsandinn geysivinsæli Hörður Magnússon segir að ekki megi hengja sig í tölfræði eða aðra þætti en þá sem skiptir máli, sér í lagi þegar kemur að landsliðsbolta. Hann var afar ánægður með frammistöðu íslenska karlalandsliðsins sem náði 2-2 jafntefli við Frakka í undankeppni HM í gær.
„Þetta er nákvæmlega það sem ég vil sjá, praktískari hluti, að við séum ekki jafn yfirmáta sókndjarfir. Það var ekkert vit í öðru en að bakka aðeins og nýta okkar styrkleika, sem eru mjög margir fram á við,“ sagði Hörður í Morgunútvarpinu á Rás 2.
Pistill Harðar um helgina vakti athygli, en þar virtist hann aðeins gagnrýna Arnar Gunnlaugsson lansliðsþjálfara fyrir að ræða góða tölfræði og frammistöðu eftir 3-5 tap gegn Úkraínu fyrir helgi.
„Fótboltinn hefur breyst og þróast í þá átt að tölfræði skipti öllu máli. Menn sem tapa eru að benda á hitt og þetta, sem aldrei var gert áður. Fótbolti er í eðli sínu einföld íþrótt og oftast þjálfararnir sem flækja hana. Ég var ekki að skjóta á Arnar Gunnlaugsson þannig lagað. Ég kann að meta Arnar en ég er bara orðinn rosalega þreyttur á svona afsökunum. Það er ýmislegt týnt til.“
Hörður var sem fyrr segir mjög sáttur við upplegg Arnars í gær og hefði viljað sjá hann nálgast leikinn við Úkraínu með svipuðum hætti.
„Mér fannst vanta aðeins meiri auðmýkt í aðdraganda Úkraínuleiksins. Ekki segjast ætla að eyðileggja drauma Úkraínu um að komast á HM, mér finnst það ekki skynsamleg nálgun á leik. Ég hafði spáð tapi, ekki af því ég vil að við töpum heldur af því mér fannst við aðeins of kokhraustir.
Frábær spilamennska er ekkert endilega að halda boltanum í fimm mínútur. Frábær spilamennska er það sem við sáum í gær gegn Frökkum. Það eru margar leiðir að markmiðinu. En að spila sóknarbolta með mikilli áhættu mun ekki skila okkur á stórmót.“
Hér má hlusta á samtalið við Hörð í Morgunútvarpinu í heild sinni