Það er óhætt að segja að Frakkar séu pirraðir á að hafa misstigið sig gegn Íslandi í undankeppni HM í gærkvöldi og þar með mistekist að tryggja sæti sitt á lokamótinu vestan hafs næsta sumar. Þarf liðið að bíða þar til í næsta mánuði eftir því að geta gert það.
Ísland og Frakkland gerðu 2-2 jafntefli í Laugardalnum í gær, líklega sanngjörn niðurstaða þegar uppi var staðið. Íslenska liðið var frábært stærstan hluta leiks, lokaði algjörlega á það franska í fyrri hálfleik en slæmur kafli í þeim seinni gerði gestunum kleift að snúa leiknum sér í vil. Strákarnir okkar svöruðu þó um hæl.
Meira
Strákarnir okkar gerðu jafntefli við Frakka
Það vantaði nokkuð í franska liðið í gær, til að mynda sjálfan Kylian Mbappe, sem og Ousmane Dembele, sem hlaut Ballon d’Or boltann á dögunum. Það verður þó ekki tekið af íslenska liðinu að það tók stig gegn einni stærstu fótboltaþjóð heims.
„Frakkar strönduðu í fjörðunum“, segir í fyrirsögn hins virta franska íþróttablaðs L’Equipe eftir leik í Reykjavík í gær. Miðillinn segir jafnframt að franska liðið hafi valdið vonbrigðum og virkað hugmyndasnautt. Þá er gengið svo langt að segja að varnarleikurinn í öðru marki Íslands, sem Kristian Hlynsson skoraði, hafi verið „katastrófa.“
Hjá Foot365 voru menn heldur ekki sáttir og er skrifað að fyrri hálfleikur hafi verið „45 mínútur af helvíti“. Þar segir að ekkert hafi gengið hjá Frökkum í fyrri hálfleik gegn sterkri og lágri varnarblokk Íslands.
Foot365 vekur einnig athygli á lykilmönnunum sem franska liðið vantar og segir að „svona geti gerst þegar B-liðið spilar“. Þess má þó geta að breiddin hjá Frökkunum er ágæt, svo vægt sé til orða tekið.
Eftir úrslitin er Ísland áfram í þriðja sæti undanriðilsins en vonin um að komast í umspil um sæti á HM er vel á lífi. Sigur í lokaleikjunum gegn Aserbaísjan og Úkraínu mun að öllum líkindum duga til, en það má gera ráð fyrir að leikurinn við Úkraínu í lokaumferðinni verði hreinn úrslitaleikur um hvort liðið tekur umspilssætið eftirsótta.