Þórir Jóhann Helgason er í erfiðri stöðu hjá ítalska úrvalsdeildarliðinu Lecce og fær hann lítið að spila. Hann heldur þó ótrauður áfram.
Landsliðsmaðurinn ræddi við 433.is á liðshóteli Íslands í dag í tilefni að komandi leikjum við Úkraínu og Frakkland. Það var komið inn á stöðu hans hjá Lecce, hvar hann hefur aðeins spilað einn leik í Serie A á leiktíðinni.
„Ég er búinn að fá lítið af mínútum. Ég á eitt ár eftir af samning svo það væri geggjað að vera búinn að spila alla leiki. Við sjáum hvernig það þróast og tökum svo stöðuna,“ sagði Þórir.
Þórir hefur verið hjá Lecce í fjögur ár en var lánaður út til Braunschweig í Þýskalandi á þarsíðustu leiktíð og gerði vel. Hann hefur verið inn og út úr liðinu á Ítalíu en áður yfirstigið hindranir og komið sér inn í liðið.
„Það eru búnir að vera margir stjórar síðan ég kom og að mínu mati finnst mér ég eiga skilið að hafa spilað meira þau ár sem ég hef verið þarna. En ég held áfram að gera mitt besta og reyna að koma mér inn í liðið. Ég lenti utan hóps eftir að ég kom til baka frá Þýskalandi. Það var leiðinlegt þegar ég fékk þær fréttir en svo kom nýr stjóri inn og ég stóð mig vel.“
Ítarlegra viðtal við Þóri, þar sem einnig er komið inn á komandi landsleiki, má nálgast í spilaranum hér ofar.