Tælenskir miðlar greina frá því að Íslendingur hafi verið handtekinn í gær fyrir að drifta á bílaleigubíl. Aðstæður voru hættulegar og mikil rigning en atvikið átti sér stað í Chon Buri-héraði í austurhluta Tælands, skammt frá ferðamannaborginni Pattaya. Myndbönd náðist af atvikinu og er talsvert gert úr málinu í fjölmiðlum ytra.
Maðurinn er í öllum miðlum sagður vera íslenskur en rétt er að setja þann fyrirvara að af og til hafa komið upp tilvik þar sem tælenskir fjölmiðlar rugla saman Íslandi og Írlandi. Átti það sér til dæmis stað árið 2024 þegar Íslendingur var sagður hafa ráðist á leigubílstjóra í sömu borg. Síðar kom í ljós að maðurinn var írskur ríkisborgari.
Tælenskir miðlar segja að íslenski ökuníðingurinn hafi keyrt á ofsahraða á rauðum pallbíl við hættulegar aðstæður í mikilli rigningu og driftað á veginum. En fyrir utan að valda álagi á bílnum er það mjög hættulegt í umferðinni.
Vegfarendur náðu myndböndum af ofsaakstrinum og birtu á samfélagsmiðlum. Í einu myndbandinu sést hinn rauði pallbíll drifta á hringtorgi við Bang Saen í mikilli rigningu, en rigningartímabilið er enn í gangi í Tælandi.
Í öðru myndbandi sést sami bíll drifta á svipuðum stað en þá í meiri umferð. Sást að hvítur maður ók bílnum. Í enn öðru myndbandi sést hinn sami bíll drifta á miðjum gatnamótum.
Lögregla fór á stúfana og komst að því að bíllinn var skráður á tælenska konu. Var hún kvödd á lögreglustöðina í Saen Suk en greindi þá frá því að íslenskur maður hefði verið með bílinn á leigu í meira en tvö ár. Hafi hún aldrei áður fengið neinar kvartanir eða tilkynningar um aðfinnsluvert aksturslag hans.
Voru henni sýnd myndböndin og sagðist hún vera fyrir vonbrigðum með þau. Hafði hún samband við leigjandann en hann sagðist ekki hafa verið að keyra bílinn sjálfur heldur vinur hans.
Engu að síður fór lögreglan á heimili leigjandans og handtók hann. Einnig var hinn rauði pallbíll gerður upptækur.
Lögreglan hefur ekki enn þá upplýst hvað Íslendingurinn verður ákærður fyrir. En frekar er búist við því að hann eigi yfir höfði sér fjársektir frekar en fangelisrefsingu.
Fyrir umferðarlagabrot af þessum toga mega ökumenn í Tælandi búast við að fá sektir upp á á bilinu 400 til 1.000 baht. Sem eru þó ekki nema á bilinu 1.500 til 4.000 krónur. Í janúar var Lithái handtekinn í Chon Buri fyrir að drifta á gatnamótum. Hann hlaut sekt upp á 12.000 baht. Eða 45.000 krónur.