Landsliðsmaðurinn Sævar Atli Magnússon hefur átt ótrúlegu gengi að fagna frá því hann gekk í raðir norska liðsins Brann frá Lyngby í Danmörku í sumar.
Sævar er kominn framar á völlinn aftur undir stjórn Freys Alexanderssonar og er hann kominn með 10 mörk í 16 leikjum. Hann hefur skorað bæði mörk liðsins í deildarkeppni Evrópudeildarinnar það sem af er, þar af sigurmarkið í fyrsta heimaleiknum gegn Utrecht.
„Það var geðveikt. Þetta var fyrsti Evrópuleikurinn í Bergen í 18 ár og það var mjög auðvelt að gíra sig í hann. Leikurinn var skemmtilegur og gekk fullkomlega upp,“ sagði Sævar, sem neitar því ekki að sjálfstraustið er í botni.
„Klárlega, ég er búinn að spila þrjár fremstu stöðurnar hjá Brann og nýta færin sem ég fæ. Það er mikilvægt því það eru ekkert rosalega mörg færi.“
Ítarlegra viðtal við Sævar er í spilaranum, en þar var einnig rætt um komandi landsleiki Íslands í undankeppni HM.