Framtíð Joshua Zirkzee hjá Manchester United er í mikilli óvissu, en samkvæmt enskum miðlum er framherjinn tilbúinn að yfirgefa félagið í janúar ef hann fær ekki fleiri tækifæri undir stjórn Ruben Amorim.
Zirkzee, sem er 24 ára, hefur ekki byrjað leik fyrir United á tímabilinu og hefur verið utan landsliðshóps Hollands hjá Ronald Koeman vegna skorts á spiltíma. Framherjinn, sem kom frá Bologna sumarið 2024 fyrir 43 milljónir punda, vill tryggja sér fast sæti í byrjunarliði til að eiga möguleika á að komast í landsliðshópinn fyrir HM næsta sumar.
Zirkzee lék 49 leiki í öllum keppnum á síðustu leiktíð, þar af 32 í ensku úrvalsdeildinni, og skoraði þrjú mörk í deildinni áður en hann meiddist gegn Newcastle í apríl.
Síðan þá hefur hann aðeins komið inn á sem varamaður í þremur deildarleikjum og fékk ekki einu sinni byrjunarliðssæti gegn Grimsby í deildarbikarnum.
Nýju mennirnir Benjamin Sesko, Bryan Mbeumo og Matheus Cunha eru allir á undan honum í goggunarröðinni en Zirkzee er sagður skilja illa af hverju hann fær ekki traustið lengur.
United ákvað að halda honum í sumar þrátt fyrir áhuga frá Napoli, sem fékk Rasmus Hojlund á láni í staðinn. Einnig höfðu Juventus og PSV Eindhoven sýnt áhuga.
Samkvæmt ítölskum fréttum gæti Como í Serie A reynt að fá Zirkzee í janúar ef staða hans á Old Trafford lagast ekki. Juventus fylgist einnig grannt með framvindu mála.
Zirkzee er samningsbundinn Manchester United til ársins 2029, með möguleika á framlengingu um eitt ár.