Fyrrverandi varnarmaður Manchester City og enska landsliðsins, Micah Richards, hefur ákveðið að hætta að drekka áfengi í tilraun til að léttast eftir bakmeiðsli.
Richards greindi frá þessu í hlaðvarpsþættinum The Rest is Football með Alan Shearer og Gary Lineker. Þar kom einnig fram að hann hafi fengið sprautu í bakið vegna meiðslanna.
Í þættinum grínaðist Shearer með að þeir myndu drekka rauðvín fram eftir kvöldi, en Lineker sagði þá að Richards væri hættur að drekka.
„Ég hef bætt of miklu á mig,“ sagði Richards og hélt áfram. „Ég var farinn að drekka en sleppti svo æfingunum daginn eftir. Ég fékk sprautu í bakið og ákvað að breyta um lífsstíl. Ég drekk ekki lengur og mér líður miklu betur, hef meiri orku og líðanin er betri.“
Micah Richards hefur eftir knattspyrnuferilinn getið sér gott orð sem sparkspekingur.