Rúben Amorim, knattspyrnustjóri Manchester United, hefur bent á óvæntan þátt sem hann telur vanta hjá liðinu og það eru ekki bara leiðtogar, heldur svokallaðir brjálæðingar inni á vellinum.
United hefur farið illa af stað undir stjórn Portúgalans og situr í 14. sæti eftir sex umferðir í ensku úrvalsdeildinni. Þá féll liðið með skömm út úr deildabikarnum gegn Grimsby Town, liði úr League Two, í ágúst.
Í viðtali við TNT Sport sagði Amorim að leikmenn þurfi ekki aðeins að vera með reynslu og stöðugleika heldur líka að hafa hrátt hugrekki og vera óútreiknanlegir.
„Við þurfum leiðtoga, en stundum held ég að það sem okkur vantar séu brjálæðingar,“ sagði hann við Owen Hargreaves hjá TNT.
„[Matheus] Cunha er dálítið þannig. Hann er góður gæi, en honum er sama hver þú ert. Ef hann fær boltann, þá fer hann bara.“
„Það skiptir ekki máli hvort það sé Bruno [Fernandes] eða Harry [Maguire], það er liðið sem skiptir máli, ekki fortíðin. Við verðum að lifa í núinu.“
Amorim sagði að leikmenn eins og Bryan Mbeumo, sem komu úr öðru umhverfi, hafi annan neista. „Þegar þú horfir á Cunha og sérð pirring í honum, þá er hann að segja: Gefðu mér boltann. Það vantar hjá okkur.“
„Stundum er ekki nóg að hafa leiðtoga. Þú þarft brjálæðingana þá sem láta ekki á sig fá þó heimurinn sé að brenna í kringum þá.“