Snorri Másson, þingmaður Miðflokksins, hefur ákveðið að bjóða sig fram til varaformannsembættis hjá Miðflokknum. Þetta kemur fram í færslu sem Snorri birti nú fyrir stundu á Facebook-síðu sinni. Hann er því þriðji þingmaður Miðflokksins sem býður sig fram til embættisins. Áður hafa Bergþór Ólason og Ingibjörg Davíðsdóttir tilkynnt framboð sitt.
Eins og vant er í stjórnmálum segist hann taka þessa ákvörðun eftir að margir hafi komið að máli við hann varðandi hugmyndina.
„Að undanförnu hef ég fengið afar eindregna hvatningu frá flokksmönnum til þess að gefa kost á mér í þetta hlutverk. Sú áskorun er komin frá ungum sem öldnum úr öllum áttum. Niðurstaða mín er sú að fram sé komið raunverulegt ákall innan flokksins um endurnýjun í ásýnd forystunnar. Við lifum sögulega tíma. Allir finna að flokkur okkar er í einstöku færi með Sigmund Davíð Gunnlaugsson í stafni, formann sem býr yfir trúverðugleika á við engan annan í íslenskum stjórnmálum. Þjóðin hefur enda kynnst vel hans þrotlausu hugsjónabaráttu fyrir hagsmunum Íslendinga í áranna rás.
Nú vex úr grasi kynslóð Íslendinga sem er líklega pólitískari en nokkru sinni fyrr og tækifærin fyrir Miðflokkinn í þessum hópi eru meiri en flestir gera sér grein fyrir. Líklega hefði maður uppskorið hlátur fyrir aðeins örfáum árum ef maður hefði spáð því að árið 2024 væri Miðflokkurinn farinn að vinna Krakkakosningar, en svona eru tímarnir að breytast,“ skrifar Snorri.
Segir hann Miðflokkinn vera í dauðafæri til að færa út kvíarnar og stækka á næstum árum.
„Lykilþáttur í þessu er að glæða innra starf flokksins nýju lífi, sem kæmi í minn hlut í þessu embætti. Þar þarf bæði að styðja enn frekar við okkar frábæra fólk, sem nú þegar er vakið og sofið yfir flokknum, og um leið gefa öllu nýja fólkinu okkar hlutverk og ábyrgð við hæfi. Ég gæti ekki hugsað mér verðugra verkefni.
Kjósendur treysta okkur í Miðflokknum fyrir því að standa vörð um fullveldi landsins, að berjast fyrir þjóðmenningu okkar í ölduróti misráðinnar alþjóðavæðingar og um leið þurfum við að efna til sóknar í lífskjörum íslensks almennings. Næsti áfangi eru sveitarstjórnarkosningar þar sem öflugir fulltrúar okkar munu koma sterkari inn en nokkru sinni fyrr. Því næst ætlum við að taka yfir landið,“ skrifar Snorri.