Málið hefur velkst um bandarískt réttarkerfi í nokkur ár, en Spencer vildi meina að flokka mætti plötuumslagið sem barnaníðsefni. Framsetningin hefði verið „klámfengin“ og augljóst brot á alríkislögum.
Spencer, sem er 34 ára, var aðeins fjögurra mánaða þegar myndin var tekin og reyndi hann að færa rök fyrir því að hann hefði orðið fyrir ómældum skaða vegna plötuumslagsins.
Í frétt Billboard kemur fram að alríkisdómarinn Fernando M. Olguin hafi hafnað þeim rökum að um barnaníðsefni væri að ræða. Sagði hann að hvorki stellingin, umhverfið né heildarsamhengið á plötuumslaginu væri kynferðislegs eðlis.
Dómarinn sagði enn fremur að Elden hefði í gegnum tíðina sjálfur gert sér far um að rækta ímynd sína sem einhvers konar „mini-rokkgoðsögn.“
Þannig hefði hann meðal annars endurskapað myndina á fullorðinsárum sínum, skrifað á minjagripi og kallað sig „Nirvana-barn.“ Sagði dómarinn að í því ljósi væri erfitt að fallast á rök hans um að hann hefði orðið fyrir ævilöngum skaða.