Íslendingar eru ein af þeim þjóðum sem eiga að meðaltali hvað flesta bólfélaga um ævina en eru langt frá því að vera með lauslátustu þjóðum heims samkvæmt nýrri greiningu. Samkvæmt henni eru Íslendingar aðeins í 19. sæti en Ástralir tróna á toppnum.
Greiningin var unnin af dýnuframleiðandanum Naplab. Var ákveðinn stuðull reiknaður út frá ýmsum þáttum. Það er meðalfjölda bólfélaga um ævina, meðalaldur til þess að missa svein- eða meydóminn, tíðni kynsjúkdóma, afstaða til kynlífs utan hjónabands og lagaleg staða þess sem og lagaleg staða vændis.
Út frá öllum þessum stöðlum hafnar Ísland í 19. sæti með 288,55 stig. Á svipuðum stað og til dæmis Danir, Kanadamenn og Tyrkir en hin síðastnefnda þjóð er einmitt þekkt fyrir að eiga flesta bólfélaga, 14,5 talsins að meðaltali yfir ævina.
Íslendingar eiga að meðaltali 13 bólfélaga sem er það fjórða mesta í heiminum en í einum flokk skörum við hins vegar fram úr. Það er aldurinn til að missa svein-eða meydóminn. Hjá Íslendingum er meðalaldurinn til að gera dodo í fyrsta skiptið aðeins 15,6 ár. Hvergi annars staðar er meðalaldurinn undir 16 árum.
Norðurlandabúar byrja almennt snemma að stunda kynlíf en sums staðar í heiminum er aldurinn mun hærri. Kínverjar missa vanalega ekki svein- eða meydóminn fyrr en um 22 ára og Indverjar ári seinna.
En fyrst Íslendingar byrja snemma að stunda kynlíf og gera það með mörgum, af hverju erum við svona neðarlega á listanum. Er það vegna þess að aðrir þættir draga okkur niður. Til að mynda tíðni kynsjúkdóma sem er mjög lág á Íslandi. Hún er nærri tvöfalt hærri í Bandaríkjunum og þrefalt hærri í Brasilíu svo dæmi séu tekin. Þá eru vændiskaup ólögleg hér á landi.
Lauslátasta þjóð heims samkvæmt greiningu Naplab eru Ástralir með 360,14 stig. Ástralir byrja vanalega 17,9 ára að stunda mök og gera það með 13,3 einstaklingum yfir ævina. Tíðni kynsjúkdóma er í meðallagi há og 81 prósent eru umburðarlyndir gagnvart kynlífi fyrir hjónaband. Vændi er löglegt í landinu.
Í næstu sætum á eftir koma Brasilíumenn, Grikkir, Sílemenn, Nýsjálendingar, Þjóðverjar, Ítalir, Svisslendingar, Tælendingar og Suður Afríkumenn. En hvergi er meira um kynsjúkdóma en í Suður Afríku.
Sú þjóð sem er umburðarlyndust allra gagnvart kynlífi fyrir hjónaband eru Frakkar. 94 prósent þeirra sjá ekkert athugavert við slíkt athæfi. Engu að síður eru Frakkar aðeins í 25. sæti á listanum.
Neðsta sæti verma Indverjar. Þrátt fyrir að vændi sé þar að hluta til löglegt þá eru aðeins 21 prósent Indverja hlynntir kynlífi fyrir hjónaband, þeir eiga aðeins 3 bólfélaga yfir ævina og eins og áður segir missa svein- eða meydóminn nærri 23 ára. Þrátt fyrir þetta er tíðni kynsjúkdóma svipað í Indlandi og á Íslandi.
Á eftir Indverjum koma Kínverjar, Indónesar, Malasíumenn, Víetnamar, Nígeríumenn, Hong Kong-búar, Suður Kóreumenn, Tævanar, og Króatar.