Tap var á rekstri Fótbolta.net á síðasta ári, ársreikningi félagsins var skilað inn í ágúst fyrir árið 2024. Hafliði Breiðfjörð og Magnús Már Einarsson voru þá eigendur vefsins. Hafliði átti 95 prósent í félaginu og Magnús fimm prósent.
Hafliði og Magnús seldu reksturinn fyrr á þessu ári en fjárfestingahópur sem Mate Dalmay fór fyrir keypti vefinn og rekur hann í dag.
Fótbolti.net hefur um árabil verið einn vinsælasti vefur landsins.
Rekstrartekjur félagsins á árinu 2024 námu 72,1 milljónir króna og lækkuðu á milli ár, árið 2023 voru tekjurnar 73,7 milljónir.
Félagið skilaði tapi upp á rúmlega 3.7 milljónir árið 2024, eftir hagnað upp á tæplega 4,7 milljónir árið 2023.
Eigið fé félagsins í árslok 2024 nam tæplega 18,8 millj. Skuldir voru afar litlar og reksturinn því í góðu jafnvægi.
Ársverk í kringum vefinn árið 2024 voru fjögur en félagið borgaði 56 milljónir króna í laun, hækkun frá árinu á undan. Önnur rekstrargjöld voru rúmar 20 milljónir og hækkuðu um 5 milljónir á milli ára.