Ögmundur Kristinsson hefur spilað tvo leiki í röð fyrir Val. Kom hann inn í liðið fyrir Stefán Þór Ágústsson, sem hafði staðið á milli stanganna í fjarveru Frederik Schram.
„Þeir skipta Ömma inn á fyrir Stebba í markinu. Mér fannst Stebbi búinn að vera flottur, svo er stórkostlegt að horfa á hann sparka í boltann. Af hverju ertu að skipta?“ sagði Valur Gunnarsson sparkspekingur um málið í Innkastinu á Fótbolta.net.
Val hefur gengið illa í síðustu leikjum og er svo gott sem úr leik í toppbaráttu Bestu deildarinnar. Valur segir að hann hafi heyrt kjaftasögu um að einhverjir leikmenn hafi viljað fá Ögmund, sem lítið hefur spilað frá því hann kom til félagsins úr atvinnumennsku í fyrra, í markið.
„Ég frétti, þetta er algjörlega óstaðfest, að það hafi verið pressa frá leikmönnum, ég veit ekki hvaða leikmönnum. Ömmi er vel liðinn í leikmannahópnum,“ sagði Valur í þættinum.