Ragnhildur Þórðardóttir, betur þekkt sem Ragga Nagli, segir gaslýsingu ekki bara eiga sér stað í ástarsamböndum heldur geta foreldrar, vinir og systkini gerst sek um það. Hún útskýrir málið í nýjum pistli á Facebook, en pistlar hennar um heilsu á mannamáli hafa notið mikilla vinsælda um árabil.
Ragnhildur er sálfræðingur með áherslu á heilsusálfræði og lærður einkaþjálfari.
Hún tekur nokkur dæmi um gaslýsingu:
„Ég var bara að djóka… má bara ekkert segja lengur.“
„Þú ert alltof mikið snjókorn.“
„Nú ertu að bregðast alltof harkalega við.“
„Þegar við fáum gaslýsingu lóðbeint í smettið eftir að hafa sett mörk varðandi hvaða talsmáta við látum ekki bjóða okkur verðum við eðlilega rugluð í ríminu um eigin tilfinningar. Þú óttast að viðbrögð þín séu of dramatísk. Þú veltir stöðugt fyrir þér hvort þú sért of viðkvæm. Þú heldur að þú sért ekki normal,“ segir Ragnhildur.
„Gaslýsing er andlegt ofbeldi sem er ætlað að láta þolandann efast um eigin upplifun og tilfinningar. Besta ráðið er að standa fast á sínu og treysta á að fyrstu viðbrögð séu eðlileg og rétt.“
Hún segir að gaslýsing gerist ekki einungis í ástarsamböndum.
„Foreldrar geta gaslýst þig. Vinir geta gaslýst þig. Systkini þín geta gaslýst þig. Yfirmaður getur gaslýst þig. Samstarfsfélagi getur gaslýst þig.“
Hún útskýrir þetta betur í pistlinum sem má lesa hér að neðan.