Víkingur er svo gott sem orðið Íslandsmeistari eftir sigur á Stjörnunni í gær, dramatískt sigurmark frá Daníel Hafsteinssyni á 96 mínútu var það sem skilaði sigri.
Stjarnan er nú sjö stigum á eftir Víkingi þegar þrír leikir eru eftir.
Mikael Nikulásson fyrrum þjálfari KFA og sérfræðingur Þungavigtarinnar var hissa á leik Stjörnunnar í gær og að Steven Caulker hefði orðið framherji síðustu mínútur leiksins.
„Hann var komin eitthvað fram, ég skildi þetta ekki. Ég var að leita af honum þegar korter var eftir, hann var að væflast frammi,“ sagði Mikael í Þungavigtinni.
Mikael fagnar því þó að Stjarnan verði ekki Íslandsmeistari. „Það hefði verið stærsti skandall knattspyrnusögunnar ekki bara á Íslandi heldur í heiminum ef Stjarnan hefði unnið þetta mót, þeir eru með alltof mörg stig,“ sagði Mikael en Stjarnan hafði verið á miklu flugi fyrir leikinn í gær.
Setti Mikael út á skiptingar Jökuls Elísabetarsonar, þjálfara Stjörnunnar, í leiknum en hann gerði þrjár breytingar í leiknum og taldi Mikael að fleiri hefðu verið orðnir þreyttir.