Knattspyrnudeild Vestra og Jón Þór Hauksson náðu samkomulagi seint í gærkvöldi um að Jón muni taka við Vestra og stýra liðinu í síðustu þremur leikjum liðsins.
Jón er væntanlegur til Ísafjarðar í dag og mun stjórna sinni fyrstu æfingu á eftir. Markmið félagsins er að tryggja sæti okkar í deild þeirra bestu. Jón Þór stýrði Vestra seinni hluta tímabilsins 2021 með góðum árangri.
„Núna er gríðarlega mikilvægt að styðja vel við liðið og að við leggjum okkur öll fram við að gera okkar besta í síðustu þremur leikjum liðsins. Allur stuðningur skiptir máli,“ segir á vef Vestra.
Davíð Smári Lamude var sagt upp störfum í gær eftir tvö mjög slæm töp á heimavelli en liðið er í fallbaráttu.
Davíð vann hins vegar frábært starf með Vestra og varð liðið bikarmeistari í ágúst undir hans stjórn.