Sigríður Svanborgardóttir, ljósmyndari og nemi í félagsráðgjöf, segir sárt að hugsa til þess þegar kynsystur hennar stinga hvor aðra í bakið. Hún fjallar um málið í pistli á Vísi og tekur nokkur dæmi, meðal annars þegar hún starfaði sem flugfreyja í innanlandsflugi og fannst hún illa svikin af samstarfskonum sínum sem hvöttu hana áfram í bakherbergjum en sneru við henni baki opinberlega.
„Ég hef oft velt því fyrir mér af hverju konur, sem ættu að vera sterkustu bandamenn hver annarrar, snúa stundum baki í þegar mest á reynir. Af hverju konur velja oftar en ekki að standa með karlmönnum, jafnvel þegar karlinn er sá sem heldur valdinu og brýtur á annarri konu. Ég hef séð þetta aftur og aftur, í fjölskyldunni, í starfi, í vinahópum, og upplifað það á eigin skinni. Það særir alltaf jafn mikið, en um leið hefur það kennt mér að greina mynstur sem er miklu dýpra en einstaklingarnir sem framkvæma það,“ segir Sigríður.
Sigríður vann í ellefu ár sem flugfreyja. „Ég var vel liðin, yfirleitt róleg og hélt mér oft til baka. En eitt gat ég ekki látið kyrrt liggja: Óréttlæti, og lítilsvirðing gagnvart okkur flugfreyjum og starfsmönnum í engum valdastöðum. Þegar yfirmenn eða flugmenn komu illa fram við okkur, þá sagði ég það upphátt,“ segir hún.
„Kollegarnir mínir sögðust styðja mig, komu í hléum til mín, deildu reiði sinni og frásögnum um framkomu flugstjóra og stjórnenda. Þær hvöttu mig áfram, sögðu að ég talaði fyrir þær allar. En þegar við stóðum saman á fundum Flugfreyjufélagsins, þar sem Icelandair-freyjurnar réðu ríkjum og skilaboðin voru skýr um að innanlandsfreyjur ættu ekki að fá sömu laun eða réttindi, þá þögðu þær. Þær sem höfðu hvatt mig í bakherbergjum snéru við mér baki opinberlega. Ég stóð eftir ein.“
Sigríður segir að þetta hafi endað með því að henni var sagt upp. „Þær konur sem höfðu sagt mér að ég væri fyrimynd fyrir að tala upphátt, hættu að tala við mig. Ég hef ekki heyrt frá þeim síðan,“ segir hún og bætir við:
„Þetta var ein beittasta reynslan mín af því að konur forðuðust samstöðu, ekki vegna þess að þær væru vondar manneskjur, heldur vegna þess að valdakerfið var sterkara en trúnaðurinn. Þær völdu að falla inn í klíkuna fremur en að standa með mér og sýna samstöðu.“
Sigríður ræðir nánar um sína reynslu af því þegar „konur stinga aðrar konur í bakið“ í pistlinum sem má lesa hér.