Sádí-arabíska úrvalsdeildarfélagið Al Ittihad er nú án þjálfara eftir að hafa sagt upp samningi við Laurent Blanc. Uppsögnin kemur í kjölfar 2-0 taps gegn Al Nassr og Cristiano Ronaldo í lykilleik í toppbaráttunni síðastliðinn föstudag.
Félagið tilkynnti brotthvarf Blanc á X-síðu sinni: „Al Ittihad tilkynnir að samningi við aðalþjálfara liðsins, Laurent Blanc, og hans þjálfarateymi hafi verið rift.“
Þrátt fyrir að liðið búi enn að stórstjörnum á borð við Fabinho, N’Golo Kanté og Karim Benzema hefur árangurinn ekki verið í samræmi við væntingar þeirra, liðið varð þó meistari á síðustu leiktíð
Samkvæmt fréttum í Sádi-Arabíu er félagið nú að íhuga óvæntan möguleika, að reyna að fá Jürgen Klopp, fyrrum stjóra Liverpool. Klopp leiddi Liverpool til Meistaradeildartitils og fyrsta Englandsmeistaratitils félagsins í 30 ár.
Klopp er í dag íþróttastjóri Red Bull og er yfir öllum þeim félögum sem eru í eigu þeirra.
Þó er ólíklegt að Klopp gefi kost á sér, miðað við fyrri ummæli hans um vöxt sádi-arabíska boltans. Í september 2023 sagði hann: „Við verðum að vernda leikinn. Þetta snýst ekki bara um deildir, heldur fótboltann sjálfan.“
Klopp hefur einnig viðurkennt að hann hafi ekki fylgst sérstaklega með leikjum í Sádi-Arabíu.