Hinn þekkti tónlistarmaður, Krummi, sem meðal annars er kenndur við hljómsveitina Mínus, segir sorglega þróun eiga sér stað í tónlistarheiminum sem lýsir sér í því að tónlistarmenn reyna að birta falska mynd af velgengni sinni. Sýndarmennska og blekkingar séu í aðalhlutverki en ekki sjálf tónlistin.
Þetta kemur fram í pistli Krumma á Facebook, sem hefur vakið mikla athygli. Hann skrifar:
„Ég veit um manneskju sem hefur byggt heila ímynd á því að setja upp falskar stöðuuppfærslur. Manneskjan póstar „greinum“ sem eiga að vera úr stórum alþjóðlegum tónlistartímaritum, þar sem nýja lag manneskjunar er sagt vera til „umfjöllunar“. En þegar maður skoðar þetta nánar er þetta allt mestmegnis sýndarveruleiki og bara skálduð lygi.
Á sama tíma er manneskjan með yfir 900 þúsund fylgjendur á Instagram en fær um 20–30 like á hverja færslu. Það þarf ekki sérfræðing til að sjá að þetta gengur ekki upp. Annaðhvort eru fylgjendurnir keyptir eða gervinotendur, eflaust bæði. Þetta er orðið klassískt dæmi um hvernig “stórar“ tölur eiga að blekkja fólk en segja í raun ekkert um raunverulegan hæfileika eða gæði listamannsins.“
Krummi segir þetta var afar sorglega þróun í tónlistarheiminum þar sem áherslunni er beint frá sjálfri tónlistinni og að sköpun falskrar ímyndar með fölskum heimildum og keyptu fylgi á samfélagsmiðlum:
„Mér finnst þetta galið og mjög sorgleg þróun í tónlistarheiminum. Í stað þess að einblína á tónlistina sjálfa, þá snýst þetta um að kaupa sér ímynd, plata fólk og reyna að pumpa upp stöðu sem á sér engar rætur í raunveruleikanum. Þetta angrar mig því annað listafólk sem leggja sál sína í sköpunina og fá ekki sömu athygli, einfaldlega af því að þau eru ekki að ljúga sig stærri en þau eru.“
Krummi segir alvarlegt þegar með þessum hætti er vegið að trausti á milli tónlistarmanna og hlustenda hans. Segir hann að marga sem dreymir um frama í tónlistarheiminum ekki vera tilbúna að leggja á sig þá vinnu sem þarf en það sé ekki hægt að stytta sér leið í tónlist:
„Margir dreyma um að ná langt í tónlist, en ekki allir eru tilbúnir að leggja á sig vinnuna sem þarf. Þau vilja sviðsljósið án þess að eyða löngum kvöldum í að semja, æfa endalaust, spila á tónleilum þar sem engin mætir, eða eyða árum í að móta list sína. Sannleikurinn er sá að tónlist verðlaunar ekki styttri leiðir. Þau sem komast áfram eru þau sem leggja inn tímann, standa undir höfnun og halda áfram þegar enginn horfir á. Hæfileikar geta opnað dyrnar, en aðeins erfiði og þrautseigja halda manneskjunni inni í herberginu.“
Fjölmargir hafa brugðist við pistli Krumma, meðal annars útvarpskonan þekkta, Andrea Jónsdóttir, sem ritar þessi ummæli:
„Gott innlegg. Þarft. Takk.“