Karlmaður á sjötugsaldri ákvað að gera jákvæðar breytingar í lífsstílnum og tókst að missa 43 kíló. Að því loknu hafði hann samband við lýtalækni til að losa sig við slappa húð og freista þess að snúa við ótímabærri öldrun. Útkoman hefur vægast sagt vakið athygli en bæði maðurinn, Dale, og læknir hans eru hæstánægðir. People greinir frá.
Dale segist hafa verið staddur á krossgötum í lífinu. Hann var nýskilinn, fluttur í nýja borg og farinn að slá sér upp með manni sem seinna varð eiginmaður hans. Dale og kærastinn ákváðu að taka til í mataræðinu og hreyfa sig meira. Dale tókst að losa sig við 43 aukakíló og kærastanum, Jonathan, tókst að losa sig við rúmlega sextíu. Þeir voru eðlilega lukkulegir með árangurinn en þar sem þeir voru báðir komnir yfir miðjan aldur sátu þeir eftir með slappa húð og ótímabæra öldrun.
„Ég er af þeirri kynslóð þar sem maður notaði álpappír og olíu á húðina til að ná sér í brúnu á Hawaii og því meira sem maður brann því betra átti það að vera. Ég hafði aldrei heyrt um rakakrem. Allt í heiminum sem er rangt er hvernig ég hagaði mér og ég hélt svo satt skuli segja að það væri bara of seint í rassinn gripið,“ segir Dale um hugarfar sitt áður en hann fundaði með lýtalækni sínum.
Fyrst ætlaði Dale bara í svuntuaðgerð en honum leist svo vel á lækninn að hann ákvað að fara líka i andlitsliftingu. Dale segist hafa fengið nóg af því að sjá ekki þann mann í speglinum sem hann upplifði að hann væri.
Nú hefur Dale heldur betur gengist undir hnífinn. Hann fór í nýlega tegund af andlitslyftingu sem kallast Deep plane þar sem vöðvum er lyft upp til að endurheimta unglegt útlit án þess að andlitið verði of strekkt. Þessi aðgerð nýtur mikilla vinsælda meðal hinna ríku og frægu í Bandaríkjunum, má þá til dæmis nefna Kris Jenner sem gekkst undir slíka aðgerð með eftirtektarverðum árangri.
Eins ákvað læknirinn að fjarlægja fitu af mjóbaki Dale og sprauta henni í afturendann á honum. Dale lét svo lyfta á sér hálsinum, enninu, gekkst undir aðgerð á bæði efri og neðri augnlokum og fór svo í sterka húðslípun.
Þessar fegrunarmeðferðir gengu vonum framar og vöktu svo mikla athygli að People ákvað að skrifa grein um málið. Líklega er þetta frábær auglýsing fyrir lækninn en af viðtalinu við Dale má ráða að þetta hafi verið hverra krónu virði, þó hann taki þó ekki fram hversu mikið þetta kostaði hann.
View this post on Instagram