Einn af þeim sem stigu fram og hrósuðu Inga var Egill Helgason eins og má lesa nánar um í þessari umfjöllun hér.
En Ingi á sér merkilega sögu því í þættinum kom fram að hann bjó í Júgóslavíu á sínum tíma þar sem hann hlúði meðal annars að slösuðum eftir styrjöldina sem þar geisaði á 10. áratug síðustu aldar.
Þetta gerðist ári eftir að hann útskrifaðist og fór hann frá eiginkonu sinni og tveimur börnum. Ingi gekk í breska herinn og fór sem friðargæsluliði til Júgóslavíu þar sem hann, ásamt kollegum sínum, sinnti hermönnum og óbreyttum borgurum.
„Stærstu slysin voru þegar börn og konur stigu á jarðsprengjur sem voru um allt,“ segir hann meðal annars í þættinum sem fjallað er um á vef RÚV.
Hann segist hafa kynnst því að ekki sé allt sjálfgefið í lífinu og að lífið sé býsna gott á Íslandi. Ingi kom heim árið 1999 og segir að dvölin í Júgóslavíu hafi haft töluverð áhrif á hann. „Ég kynntist mörgu og sá margt sem var erfitt í mörg ár á eftir,“ segir hann meðal annars.
Í þættinum fjallar Ingi Þór einnig um hjúkrunarfræðinámið og starfið sem hjúkrunarfræðingur. Kemur hann meðal annars inn á að hann skilji ekki hvers vegna ekki fleiri karlar fari í að læra hjúkrun.