Annars vegar er um að ræða þjófnað á peningum úr verðmætaflutningabíl í Hamraborg í mars í fyrra þar sem 20-30 milljónum króna var stolið. Hitt málið varðar svo hraðbanka sem stolið var í Mosfellsbæ á dögunum. Hraðbankinn fannst í vikunni sem og allt það fé sem í honum var, 22 milljónir króna.
Í frétt sem Vísir birti í morgun kemur fram að Hrannar hafi játað aðild að þessum tveimur málum. Hann er 41 árs, hefur starfað sem verktaki og er sagður í frétt Vísis „sérfræðingur“ þegar kemur að vinnu á stórum vélum eins og vörubílum og gröfu.
Hrannar var úrskurðaður í fjögurra vikna síbrotagæslu í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær að kröfu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Hann gaf skýrslu í gegnum fjarfundarbúnað í Gufunesmálinu svokallaða í gær, en um tíma var hann grunaður um aðild að því.
Í frétt Vísis í gær kom fram að í máli Hrannars fyrir dómi hafi meðal annars komið fram að hann hefði lítið vitað um tálbeituaðgerðina gegn Hjörleifi en honum hafi verið boðið að koma með til Þorlákshafnar. Hann hafi hafnað því boði.