Í frétt blaðsins er fjallað um slæmar niðurstöður sem fengust úr eftirliti og sýnatökum í sundlaugum á Suðurlandi. Fram kemur að þegar hafi tveimur köldum pottum verið lokað, annars vegar á Hvolsvelli og hins vegar í Hveragerði. Ekki sé bara um kalda potta að ræða því einnig séu dæmi um slæmar niðurstöður þegar kemur að sundlaugum.
Sigrún segir þörf á vitundarvakningu og að ekki sé bara hægt að kenna útlendingum um. Íslendingar beri líka ábyrgð. „Einhverjir eru jafnvel nýkomnir úr ræktinni og fara bara beint ofan í sundlaugina. Það er ekki sniðugt. Ef þú þrífur þig ekki þá ertu að bera bakteríur út í sundlaugina,“ segir hún.
Varðandi köldu pottana segir Sigrún að yfirleitt sé ekki settur klór í þá. „Um leið og einhver kemur í pottinn, sem hefur ekki þrifið sig almennilega, þá er hann búinn að menga hann,“ segir hún.
Í frétt Morgunblaðsins kemur fram að Heilbrigðiseftirlitið ætli að gefa út grein þar sem fjallað verður um mikilvægi klórs og sótthreinsiefnis í baðvatni. Þá verði landsmenn hvattir til að þrífa sig vel áður en farið er ofan í laugarnar.