fbpx
Fimmtudagur 28.ágúst 2025
Pressan

Yfirgaf konu og börn og sviðsetti eigin dauða – Dómari sýndi honum enga miskunn

Pressan
Miðvikudaginn 27. ágúst 2025 22:00

Ryan með þáverandi eiginkonu sinni Emily og þremur börnum þeirra.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ryan Borgwardt, 45 ára Bandaríkjamaður, sviðsetti eigin dauða í fyrra og yfirgaf eiginkonu sína og þrjú börn. Þetta gerði hann þar sem hann hafði kynnst annarri konu í Evrópuríkinu Georgíu og ætlaði sér að hefja nýtt líf með henni.

DV fjallaði meðal annars um málið í fyrra.

Í gær féll dómur yfir Ryan en hann var dæmdur í 89 daga fangelsi fyrir að hindra störf lögreglu. Dómurinn jafngildir fjölda þeirra daga sem honum tókst að villa um fyrir yfirvöldum.

Það var þann 12. ágúst í fyrra að Ryan, sem búsettur er í Wisconsin, skilaði sér ekki heim úr kajakferð á vatnið Green Lake. Báturinn hans fannst mannlaus á vatninu og benti flest til þess að eitthvað hafi gerst sem varð til þess að hann drukknaði. Bíllinn hans fannst einnig á sínum stað, á bílastæði, við vatnið.

Umfangsmikil leit að líki hans skilaði engum árangri og heima sátu eiginkona og þrjú börn, sem allt í einu voru orðin föðurlaus, í sárum. Lögreglu grunaði þó fljótt að maðkur væri í mysunni og komst á sporið í október í fyrra þegar tölvan hans var tekin til rannsóknar.

Við yfirferð á henni kom ýmislegt í ljós, til dæmis að hann hafði átt í samskiptum við ónefnda konu í fjarlægu landi, opnað nýjan bankareikning og aflað sér upplýsinga um hvernig best væri að flytja fé úr landi. Þá hafði hann tilkynnt um týnt vegabréf og fengið nýtt afhent skömmu áður en hann hvarf. Gamla vegabréfið hans var heima.

Ryan játaði sök fyrir dómi en auk þess að sæta 89 daga fangelsi var honum gert að greiða 30 þúsund dollara í sekt, sem er um það bil kostnaður yfirvalda við að leita að honum.

„Ég iðrast gjörða minna og þess sársauka sem ég hef valdið fjölskyldu og vinum,“ sagði Borgwardt fyrir dómi áður en refsingin var ákveðin.

Saksóknarar kröfðust 45 daga fangelsisvistar, en Mark Slate, dómari í Green Lake-sýslu, ákvað að lengja dóminn í 89 daga. „Hann villti um fyrir lögreglu í alls 89 daga,“ sagði dómarinn og lagði áherslu á að refsingin gæti haft fælingarmátt fyrir þá sem kynnu að íhuga að sviðsetja eigið andlát líkt og Ryan gerði.

Í ákæru kom fram að hann hefði hvolft kajaknum viljandi og komið sér í land á uppblásnum gúmmíbát sem hann hafði meðferðis. Hann hjólaði svo 110 kílómetra á rafhjóli til borgarinnar Madison, tók rútu þaðan til Toronto, flaug til Parísar og þaðan áfram til Georgíu í Kákasus.

Í nóvember 2024 tókst yfirvöldum loks að ná sambandi við Ryan og sannfæra hann um að snúa aftur til Bandaríkjanna í desember. Hann gaf sig fram og var ákærður fyrir að hindra leitina. Eiginkona hans, sem hann hafði verið giftur í 22 ár, skildi við hann fjórum mánuðum síðar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 2 dögum

Algjörlega misheppnað sprengjutilræði í Stokkhólmi – Sprengdi sjálfan sig í loft upp

Algjörlega misheppnað sprengjutilræði í Stokkhólmi – Sprengdi sjálfan sig í loft upp
Pressan
Fyrir 2 dögum

Mikil reiði í Hollandi – Hælisleitandi myrti 17 ára stúlku og nauðgaði konu skömmu áður

Mikil reiði í Hollandi – Hælisleitandi myrti 17 ára stúlku og nauðgaði konu skömmu áður
Pressan
Fyrir 3 dögum

Fundu fjögur lík í Signu – Einn handtekinn vegna málsins

Fundu fjögur lík í Signu – Einn handtekinn vegna málsins
Pressan
Fyrir 3 dögum

Pólitísk sprengja – Leigumorðingi átti að drepa hund og svikull milljarðamæringur sem vill verða forsætisráðherra

Pólitísk sprengja – Leigumorðingi átti að drepa hund og svikull milljarðamæringur sem vill verða forsætisráðherra
Pressan
Fyrir 3 dögum

Þess vegna verður þú að hætta að vaska upp í höndum

Þess vegna verður þú að hætta að vaska upp í höndum
Pressan
Fyrir 3 dögum

Sérfræðingur í fæðuöryggi segir að hér megi aldrei geyma mjólkina

Sérfræðingur í fæðuöryggi segir að hér megi aldrei geyma mjólkina