Bruno Fernandes, fyrirliði Manchester United, átti slakan leik og klikkaði á víti í jafntefli gegn Fulham í gær.
United sótti sitt fyrsta stig á leiktíðinni í gær, en leiknum lauk 1-1. Fernandes klúðraði vítaspyrnunni í stöðunni 0-0.
Portúgalinn segir að það hafi truflað sig að Chris Kavanagh, dómari leiksins, hafi rekist í hann er hann gerði sig kláran í að taka spyrnuna.
„Þú ert með þína rútínu áður en þú tekur víti, einhverja ákveðna hluti sem þú gerir,“ sagði Fernandes eftir leik.
„Það pirraði mig að dómarinn hafi ekki beðist afsökunar. Það er samt ekki afsökun fyrir klúðrinu.“
Þó Fernandes hafi tekið fram að atvikið afsaki ekki klúðrið hafa þessar útskýringar hans vakið furðu meðal netverja, sem hafa gagnrýnt hann mikið.