Mikael Nikulásson, einn vinsælasti sparkspekingur landsins, segir íslensk félagslið almennt hafa orðið sér til skammar í Evrópukeppnum í sumar. Hann ræddi þetta í Þungavigtinni.
Breiðablik, Víkingur, Valur og KA tóku þátt í Evrópukeppni í sumar. Blikar byrjuðu í Meistataradeildinni og eru mættir í umspil um sæti í Sambandsdeildinni eftir tap í síðustu tveimur einvígum í Meistaradeild og Evrópudeild. Liðið vann þá aðeins nauman sigur gegn Virtus frá San Marínó í fyrri leik liðanna í Kópavogi á fimmtudag.
Víkingur fór í 3. umferð Sambandsdeildarinnar og tapaði 4-0 gegn tíu leikmönnum Bröndby eftir frábæran 3-0 sigur í fyrri leiknum. Valur datt út í 2. umferð sömu keppni gegn liði frá Litháen og það sama má segja um KA, sem fékk erfiðan andstæðing frá Danmörku.
„Við erum bara að gera okkur að fíflum í þessari Evrópukeppni í sumar. KA stóð sig reyndar ágætlega á móti Silkeborg, ég tek það ekki af þeim. Ég veit ekki á hvaða vegferð við erum,“ sagði Mikael í Þungavigtinni fyrir helgi.
„Þetta er bara djók. Breiðablik fer áfram, þeir detta ekki út fyrir þessu liði. En það hlýtur að vera með óbragð í munni, það er bara þannig. Stjarnan 2014 þurfti að vinna þrjár viðureignir til að komast á sama stað og Breiðablik er á núna og þeir fengu Inter. Breiðablik er búið að tapa tveimur einvígum í röð fá svo lið frá San Marínó.“
Mikael telur að Evrópukeppnir séu farnar að virka eins og góðgerðastarfsemi, en meistaralið frá minni löndum eiga nú góðan möguleika á að komast í Evrópukeppni í formi Sambandsdeildar ár hvert. Miklir peningar fylgja því.
„Ég sé ekki hvernig það styrkir fótboltann í landinu þegar það er verið að gefa Breiðablik peninga fyrir að vera Íslandsmeistarar. Ég hef ekki séð það á deildinni í sumar.“