Rósa segir að það hafi komið henni á óvart um helgina að lesa í fjölmiðlum um tveggja milljarða króna framlag ríkisstjórnarinnar vegna nýrrar viðbyggingar við Þjóðleikhúsið.
Logi Einarsson, menningar,- nýsköpunar- og háskólaráðherra, greindi frá þessu í ávarpi þegar Menningarnótt var sett á laugardag. Stefnt er að því að byggingin verði 2.000 til 3.000 fermetrar að stærð og að hún verði tekin í notkun árið 2030, eða þegar Þjóðleikhúsið fagnar 80 ára afmæli.
„Ég las um þetta fyrst á mbl.is og hafði aldrei heyrt áður að Þjóðleikhúsið þyrfti að stækka við sig. Þannig að það kom mér á óvart. Með fullri virðingu fyrir þeirri góðu menningarstofnun þá finnst mér þetta skjóta dálítið skökku við á þessum tíma,“ segir Rósa í samtali við Morgunblaðið í dag.
Rósa bendir á að forsætisráðherra hafi talað um mikilvægi þess að sýna aðhald í ríkisfjármálum. Hún tekur fram að hún sé ekki á móti öflugu menningarlífi en það þurfi að forgangsraða. Veltir hún fyrir sér hvaða skilaboð sé verið að senda til landsbyggðarinnar.
„Ég veit ekki hvað fólki á landsbyggðinni finnst um að hærri veiðigjöld, sem rökstudd voru með loforðum um bættar samgöngur, séu nú, að því er virðist, notuð í Þjóðleikhúsið. Þetta eru skrítin skilaboð til landsbyggðarinnar,“ segir Rósa við Morgunblaðið í dag þar sem nánar er fjallað um málið.