Tvítug stúlka frá Þýskalandi og tæplega 18 ára stúlka frá Slóvakíu hafa verið ákærðar fyrir stórfellt fíkniefnabrot. Eru þær sakaðar um að hafa sunnudaginn 30. mars, í félagi, staðið að innflutningi á rúmlega 20 þúsund töflum með virka efninu dímetyl-etóníatasen, en fíkniefnin fluttu þær til Íslands í lyfjaspjöldum merktum OxyContin 80 mg.
Hafði efnunum verið komið fyrir í ferðatöskum ákærðu en þær voru farþegar í flugi frá Frankfurt til Íslands. Skiptu þær vörslu efnanna á milli sín.
Aðalmeðferð í málinu verður við Héraðsdóm Reykjaness þann 26. ágúst næstkomandi.