Lögregla hefur krafist gæsluvarðhalds yfir manni sem grunaður er um aðild að ráni hraðbanka Íslandsbanka í Mosfellsbæ á þriðjudagsnótt. RÚV greinir frá.
Lögregla hafði leitað mannsins, sem er á fertugsaldri, og notið liðsinnis sérsveitar þar sem óttast var maðurinn væri vopnaður. Hann gaf sig síðan fram við lögreglu undir lok gærdags og hefur verið í haldi lögreglu.
Verjandi mannsins, Sveinn Andri Sveinsson, upplýsir í samtali við RÚV að maðurinn neiti aðkomu að hraðbankaráninu.
Maðurinn er einnig grunaður um aðild að tugmilljóna króna ráni úr peningaflutningabíl Öryggismiðstöðvarinnar í Hamraborg í fyrra. Það mál er enn í rannsókn.
Fyrr á árinu sat hann í gæsluvarðhaldi vegna Gufunesmálsins, þar sem maður frá Þorlákshöfn lést eftir misþyrmingar, en hann var ekki ákærður fyrir aðild að því máli.