Héraðssaksóknari hefur ákært Selfyssing af erlendum uppruna fyrir tilraun til stórfellds fíkniefnabrot og fyrir peningaþvætti. Maðurinn er tæplega 52 ára gamall.
Ákært er vegna atvika í Reykjavík sunnudaginn 24. mars 2024. Fyrir utan Hótel Frón á Laugavegi reyndi ákærði að taka við rétt tæpu kílói af kókaíni, þegar hann tók við farangurstösku af konu. Taldi hann að umrædd fíkniefni væru í töskunni en lögregla hafði áður lagt hald á efnin og fjarlægt þau úr farangurstöskunni. Efnin voru falin í niðursuðudósum en konan kom með flugi frá Varsjá í Póllandi.
Við húsleit hjá manninum fundust 1.740.000 krónur í reiðufé sem lagt var hald á. Vegna þeirra peninga er maðurinn ákærður fyrir peningaþvætti, en hann er sagður hafa á rúmlega árs tímabili aflað sér ávinnings af sölu og dreifingu fíkniefna, sem og af öðrum refsiverðum brotum, fyrir þessa upphæð.
Málið verður þingfest við Héraðsdóm Suðurlands þann 28. ágúst næstkomandi.