Repúblikanar fara með völdin í ríkinu og þeir láta nú heldur betur til sín taka við að láta fjarlægja bækur sem eru þeim ekki að skapi. Flórída er það ríki Bandaríkjanna þar sem flestir bókartitlar hafa verið bannaðir það sem af er ári.
Og yfirvöld í ríkinu virðist ekki ætla að slaka neitt á í ritskoðuninni. William Johnson, forstjóri PEN America í Flórída, sagði í samtali við the Guardian að hér sé um hugmyndafræðilega baráttu að ræða þar sem markmiðið sé að útrýma öllu er varðar málefni samkynhneigðra og hinsegin fólks sem og að gera út af við opna umræðu um kynlíf. Þetta sé gert með að fjarlægja bækur úr bókasöfnum. „Ef ritskoðunin heldur áfram að breiðast út, mun þögn ekki bjarga okkur. Flórídabúar verða að láta heyra í sér núna,“ sagði hann.
Bókabönn hafa færst í aukana í Bandaríkjunum síðan 2021 og þessi nýja bylgja í Flórída er tilkomin vegna aukins þrýstings frá fræðslunefnd ríkisins.
Nefndin gaf fræðsluumdæminu Hillsborough county harðorða aðvörun í maí og sagði að ef „klámfengnir“ titlar yrðu ekki fjarlægðir af skólabókasafninu, myndi nefndin fara lagalegu leiðina gegn skólanum. Rúmlega 600 bókartitlar voru fjarlægðir af safninu í kjölfarið. Meðal bókanna sem voru fjarlægðar er Dagbók Önnu Frank.
PEN segir ritskoðun nefndarinnar á lesefni í Hillsborough county vera „ríkisrekna ritskoðun“ og segir að með þessu sé verið að treysta völd með óttastjórnun, með því að hunsa lagaleg fordæmi og þagga niður í ýmsum röddum í almenningsskólum í Flórída.