Rannsóknin, sem hefur verið birt í vísindaritinu Evolution and Human Behavior, byggir á gögnum um rúmlega 4.300 Bandaríkjamenn á aldrinum 18 til 60 ára.
Vísindamennirnir mældu styrkleika efri hluta líkamans með því að mæla handgripsstyrk fólks.
Niðurstöðurnar sýndu að karlmenn, sem voru með sterkan efri hluta líkamans, voru líklegri til að eiga marga rekkjunauta á lífsleiðinni og þeir voru einnig líklegri til að vera í langtímasambandi.
Eitt af því sem kom vísindamönnunum mest á óvart var að konur, með sterkan efri hluta líkamans, eru einnig líklegri til að eiga marga rekkjunauta á lífsleiðinni.
Vísindamennirnir tóku þætti á borð við BMI, menntun, kynþátt, heilsufar, hormónamagn og virkni fólks með í útreikningum sínum til að tryggja að tengslin á milli styrks fólks og fjölda rekkjunauta væru ekki aðeins tilkomin vegna þessar fyrrgreindu þátta.
PsyPost segir að markmið rannsóknarinnar hafi verið að varpa ljósi á hvernig líkamlegur styrkur hjálpaði hugsanlega forfeðrum okkar við að laða aðra að sér og láta sambandið endast. Þróunarkenningar hafa verið settar fram um að karlar hafi þróast til að vera sterkari af því að líkamlegur styrkur veitti þeim forskot í baráttunni við aðra karla og við að vernda maka sína.
Engin tengsl fundust á milli styrks og fjölda rekkjunauta síðasta árið eð hversu gamalt fólk var þegar það stundaði kynlíf í fyrsta sinn.
Þetta getur bent til að tengslin á milli styrks og kynlífs tengist frekar almennu mynstri í gegnum lífið frekar en kynlífi sem var stundað nýlega.
Vísindamennirnir velta fyrir sér af hverju sterkari konur segjast hafa átt fleiri rekkjunauta en þær sem eru ekki eins sterkar. Ein af kenningum þeirra er að sterkari konur séu vandlátari þegar kemur að því að velja sér maka til framtíðar og því séu þær hugsanlega viljugri til að kanna mismunandi möguleika í kynlífi. Önnur kenning er að sterkari konur séu oft með körlum sem eru einnig líkamlega sterkir.