Það var aðfaranótt mánudags sem hitinn fór ekki niður fyrir 35 gráður í nokkrum hlutum Jórdaníu. Aðfaranótt þriðjudags fór hitinn ekki niður fyrir 36 gráður í Sedom í Ísrael.
The Guardian skýrir frá þessu og segir að aldrei hafi næturhitinn mælst svona hár í löndunum síðan mælingar hófust.
Loftslagsvísindamaður í Amman í Jórdaníu sagði að það að vera í svona miklum hita sé „eins og að ganga í gufubaði“.
Læknar segja að hár næturhiti komi í veg fyrir að líkami fólks geti hvílt sig eftir átök dagsins og þetta eigi sinn þátt í mörgum andlátum. Þetta sé vanmetinn þáttur.
Hitinn að degi til var einnig mjög hár í síðustu viku. Hann fór í 49,7 gráður á hinum hertekna Vesturbakka.
Í Aqaba, sem er hafnarborg við Rauðahaf, var hitametið í Jórdaníu slegið þegar hitinn fór í 49,6 gráður.
Heilbrigðisráðherrar í mörgum löndum í Miðausturlöndum hafa hvatt fólk til að halda sig í skugga og drekka mikið vatn.