fbpx
Sunnudagur 17.ágúst 2025
Fréttir

Segir fundinn hafa snúist um endurreisn samstarfs Bandaríkjanna og Rússlands – „Úkraína varð aukaatriði“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Sunnudaginn 17. ágúst 2025 12:00

Mynd: Getty

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Fundurinn í Alaska snérist í raun um endurreisn tvíhliða samstarfs Bandaríkjanna og Rússlands. Úkraína varð aukaatriði, Zelensky var hvergi nærri,“ segir Hilmar Þór Hilmarsson, prófessor við Háskólann á Akureyri, um leiðtogafund Putin og Trump í Anchorage í Alaska í vikunni.

Þær niðurstöður fundarins sem lekið hafa út virðast fremur rýrar hvað varðar hagsmuni Úkraínu en þó virðist sem samið hafi verið um einhvers konar öryggisábyrgðir fyrir Úkraínu að stríði loknu. DV bað Hilmar um álit á þeim punkti.

„Leiðtogar Evrópu og yfirvöld í Úkraínu hafa væntingar um að Donald Trump Bandaríkjaforseti muni taka þátt í að veita öryggisábyrgðir, eða það sem kallað er „a non-NATO Article 5 type security guarantee“ fyrir Úkraínu að stríði loknu. Mér skilst að Trump hafi ekki útilokað það þó mjög óljóst sé hvað í slíkri tryggingu gæti falist eða hvernig hún yrði framkvæmd. Ég held að hér þurfi friðarsamning til lengri tíma fremur en vopnahlé þar sem átök geta blossað upp hvernær sem er aftur án friðarsamnings. Ég held að Trump átti sig á þessu, hins vegar leggja margir leiðtogar Evrópuríkja áherslu á vopnahlé milli Rússlands og Úkraínu.

Hverjar svo sem öryggistryggingarnar kynnu að verða, þá hefur Donald Trump gert það ljóst að Bandaríkin muni ekki halda áfram að útvega Úkraínu vopn, þó að hann sé tilbúinn að selja Evrópu vopn til að nota við varnir Úkraínu. Þetta hefur valdið stuðningsmönnum Úkraínu í Evrópu vonbrigðum sem myndu vilja sterkari tryggingar frá Bandaríkjunum að stríði loknu. Ég held að Bandaríkin séu ekki að fara að senda hermenn inn í Úkraínu. Stór Evrópuríki eins og Frakkland og Ítalía eru ekki að fara að kaupa vopn frá Bandaríkjunum til að senda til Úkraínu. Ég held að almennt hafi Bandaríkin forðast að vera með hermenn við landamæri Rússlands.“

Hugmynd um friðargæsluliða fráleit

„Keir Starmer, forsætisráðherra Bretlands, og fleiri leiðtogar Evrópu þar á meðal Emmanuel Macron Frakklandsforseti og Friedrich Merz, kanslari Þýskalands, hafa rætt um að tryggja öryggi Úkraínu án Bandaríkjanna, til dæmis með því að mynda bandalag  (e. coalition of the willing) með hermönnum frá NATO ríkjum sem kallaðir væru „friðargæsluliðar.“ Mér finnst þessi hugmynd óraunhæf, að halda að í stað formlegar NATO aðildar sé hægt að hleypa Úkraínu bakdyramegin inn í NATO og raða NATO hermönnum við landamæri Rússlands og Úkraínu og kalla þá „friðargæsluliða“. Þessi hugmynd leiðir ekki til friðarsamninga heldur til áframhaldandi stríðs milli Rússlands og Úkraínu.“

Hilmar segir að ályktun um að Úkraína skuli verða NATO-ríki hafi verið mikil mistök:

„Það er líka að koma betur og betur í ljós hversu skelfileg mistök voru gerð á leiðtogafundi NATO í Búkarest í apríl 2008 þegar ályktað var að Úkraína færi í NATO og reyndar líka Georgía. Engin samstaða var um það mál innan NATO og þó að þáverandi kanslari Þýskalands, Angela Merkel, og þáverandi forseti Frakklands, Nicolas Sarkozy, væru andvíg þessari hugmynd stóðu þau ekki í lappirnar þegar til kom. George W. Bush, þáverandi forseti Bandaríkjanna, náði þessu í gegn með stuðningi nokkurra ríkja, t.d. Eystrasaltsríkjanna og Póllands.“

Friðarsamningur fremur en vopnahlé

„Margir leiðtogar Evrópu hafa viljað semja um vopnahlé milli Rússlands og Úkraínu þó margsinnis hafi komið fram að yfirvöld í Rússlandi vilji varanlegan friðarsamning sem tryggir öryggi bæði Úkraínu og Rússlands til lengri tíma litið. Rússar eru nú að sækja fram á vígvellinum og líta á vopnahlé aðeins sem tækifæri fyrir Úkraínu að taka á móti fleiri vopnasendingum, þjálfa fleiri hermenn og endurskipuleggja sig á vígvellinum. Vegna slæmrar stöðu á vígvellinum er krafa Úkraínu um vopnahlé skiljanleg og verður háværari,“ segir Hilmar ennfremur. Hann bætir við að svo virðist sem Trump öðlast skilning á kröfum Rússa um friðarsamning í stað vopnahlés á leiðtogafundinum.

Hann telur að Rússar leggist ekki gegn því að Úkraína hafi her að loknu stríði en slíkur her væru varnarlið sem ekki gæti ógnað öryggi Rússlands síðar. Þarna geti þó verið erfitt að greina á milli. Úkraína yrði þó ekki skilin eftir varnarlaus að stríði loknu.

„Þeir halda hér um bil 80 prósent af sínu landi eftir þrjú og hálft ár. Sumir myndu kalla þetta varnarsigur gegn miklu stærra og fjölmennara ríki.“

Þreytulegur Trump og langt í friðarsamninga

Hilmar telur að langt sé í friðarsamninga milli Rússlands og Úkraínu. Fundurinn í Alaska hafi hins vegar verið sigur fyrir Pútín.

„Rússnesk yfirvöld gera kröfur sem Úkraína getur ekki fallist á, t.d. yfirráð yfir fjórum héruðum (oblasts) og Krímskaganum, að öllum viðskiptaþvingunum og refsiaðgerðum verði aflétt, að gjaldreyrisvarasjóði Rússlands verið skilað, að engar stríðsskaðabætur verði greiddar til Úkraínu, o.s.frv. Það er mjög óljóst hvort nokkuð af þessu var rætt ítarlega í Alaska og enn síður hvort einhverjar hugsanlegar lausnir séu í sjónmáli.“

Hann segir ekkert vopnahlé vera í augsýn: „Það var engin niðurstaða fyrir Trump nema fleiri fundir sem ekki hafa verið tímasettir og að Trump fari hugsanlega til Rússlands á næsta fund. Kemur svo sem ekki á óvart. Ég sé ekkert vopnahlé í sjónmáli í Úkraínu, hvað þá friðarsamninga. Mér fannst Trump vera þreytulegur á fundinum í Alaska.“

Hann segir að vel hafi farið á með Trump og Pútín, ólíkt þeirri spennu sem virðist oft vera á milli Trump og Zelensky Úkraínuforseta og opinberaðist á frægum fundi í Hvíta húsinu í febrúar.

„Þetta kemur svo sem ekkert á óvart í þeirri stórveldasamkeppni sem nú er orðin að veruleika. Í raun finnst mér að fundurinn í Alaska hafi snúist um að endurreisn tvíhliða samstarfs Bandaríkjanna og Rússlands, Úkraína var aukaatriði. Leiðtogar sumra NATO ríkja vita ekki hvaðan á sig stendur veðrið með Trump og hafa brugðist við óvissunni með smjaðri og framkvæmdastjóri NATO gengið einna lengst með því að kalla Trump „daddy“.“

Sér ekki fyrir endann á harmleiknum

„Ég held að það yrði ekki mjög erfitt fyrir Trump og Pútin að komast að friðarsamkomulagi með málamiðlunum, en það verður erfitt að fá Evrópuleiðtoga til að samþykkja þær og enn erfiðara að fá Zelensky og hans ráðgjafa til að fallast á slíkar málamiðlanir. Mér finnst ekki ólíklegt að Bandaríkin dragi sig í auknum mæli út úr þessu máli og láti Úkraínu og Evrópu um lausn þess. Ef Trump fer til Moskvu geta önnur mál orðið fyrirferðameiri í umræðum forsetanna en stríðið í Úkraínu. Austur-Asía og Persaflóinn eru að mínu mati mikilvægari svæði nú fyrir Bandaríkin en Evrópa, hvað þá Úkraína ein.“

„Því miður sér ekki fyrir endann á harmleiknum í Úkraínu. ESB er í veikri stöðu eins og sést á tollunum sem Bandaríkin lögðu á sambandið, auk krafna um fjárfestingu ESB ríkja í Bandaríkjunum. Það verður flókið að standa við þetta því ESB stjórnar ekki fjárfestingum fyrirtækja í sambandinu á erlendum vettvangi. NATO er vandræðabarn í augum Trump sem vill velta kostnaðinum af bandalaginu að miklu leyti yfir á Evrópu. Engin lausn er í sjónmáli enda eru Bandaríkin og Evrópa ekki samstíga varðandi Úkraínu. Eins og staðan er, er líklegra að úrslitin ráðist á vígvellinum frekar en við samningaborðið. Hafnarborgin Odessa og svo næst stærsta borg Úkraínu, Kharkiv, geta verið í hættu haldi stríðið lengi enn áfram.“

Hilmar telur að samskipti Bandaríkjanna og Rússlands muni batna en áfram verði þó náið samband á milli Rússlands og Kína, sem Trump vill veikja:

„Ég held að Donald Trump vilji bætt samskipti við Rússland ekki á ósvipaðan hátt og Richard Nixon opnaði á bætt samskipti við Kína, sem þá var umdeilt. Þó samskipti Bandaríkjanna og Rússlands batni smátt og smátt verður samt að mínu mati áfram náið samband milli Rússlands og Kína. Kína hefur mikið vinnuafl en Rússland á miklar auðlindir. Þessi lönd munu vinna náið saman áfram. En bætt samskipti milli Bandaríkjanna og Rússlands munu styrkja Bandaríkin í stórveldasamkeppninni við Kína. Ég held Trump sjái þetta þannig og þar hefur hann að mínu mati rétt fyrir sér.“

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Meintur níðingur á Múlaborg vel liðinn og sagður blíður við börn

Meintur níðingur á Múlaborg vel liðinn og sagður blíður við börn
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Síminn sektaður fyrir ólöglegar auglýsingar

Síminn sektaður fyrir ólöglegar auglýsingar
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Hefur þú það sem þarf til að stýra nýju Þjóðaróperunni?

Hefur þú það sem þarf til að stýra nýju Þjóðaróperunni?
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ósáttur við leiðtogafundinn – „Tekið á móti eftirlýstum stríðsglæpamanni með kostum og kynjum“

Ósáttur við leiðtogafundinn – „Tekið á móti eftirlýstum stríðsglæpamanni með kostum og kynjum“