Stóri Kjörísdagurinn fór fram í Hveragerði í dag. Viðburðurinn var gríðarlega vel sóttur og er áætlað að yfir 20 þúsund manns hafi lagt leið sína á hátíðina. Þrátt fyrir mikið álag á gatnakerfi og innviði bæjarins, gekk hátíðin vel fyrir sig. Bílastæðamál reyndust áskorun á köflum en þökk sé góðu skipulagi fannst lausn fyrir flesta gesti. Hátíðin er liður í Blómstrandi dögum í Hveragerði.
Vinsæla drengjabandið Iceguys mætti á svæðið, steig á sviðið með sprell og almennum fíflagangi. Að lokum buðu þeir VIÐstöddum upp á selfie og heilsuðu upp á aðdáendur og kynntu nýlega 500 ml. ísdós sem þeir lýstu sjálfir sem „hreinni gleði í dós“. Þriðja þáttaröð hljómsveitarinnar er nýkomin í sýningu hjá Sjónvarpi Símans og vinsældir þeirra hafa náð áður óþekktum hæðum á Íslandi. Röðin til að ná mynd með þeim var á tímabili tug, jafnvel hundrað metra löng.
Á svæðinu voru einnig samfélagsmiðlastjörnurnar Sunneva Einars og Birta Líf með vinsælu Bestís vörulínuna sína, en hún hefur öðlast sess sem klassískur íslenskur heimilisís. Vinsælt var nýta tækifærið fyrir selfie með þeim stöllum.
Dagskráin var fjölbreytt og lífleg. Heimaböndin Slysh og Koppafeiti héldu uppi stemningunni og aðalnúmer kvöldsins, Emmsjé Gauti, tók sín vinsælustu lög og kynnirinn Lalli Töframaður hélt uppi töfrandi stemmingu.
Fyrir yngstu gestina var þrautabraut Hjalta Úrsusar á sínum stað. Hjalti nýtti einnig tækifærið til að hrósa nýjustu afurð Kjörís Styrkur ís, sem hann kallaði algeran „game changer“ fyrir íþróttafólk og þá sem leggja áherslu á aukna prótein inntöku.
Eins og hefð er fyrir á Stóra Kjörísdeginum var boðið upp á ómælt magn af ís og krapa, í ár var boðið upp á 20 mismunandi tegundir. Vinsælasta tegundin var Dubai ísinn, sem hefur notið mikilla vinsælda á samfélagsmiðlum undanfarið en Kjörís setti hann á markað fyrir um fjórum vikum og tilkynnti nýlega að framleiðslan væri nú í tímabundnu stoppi vegna afurðaskorts .
Gestir gátu einnig smakkað úrval „furðuísa“ á borð við mascarpone-ís, popcorn-ís og UBE-ís unnin úr fjólubláum sætum kartöflum.
Löng hefð er fyrir furðuísum á ísdeginum en einn umtalaðasti furðuísinn frá fyrri árum er klárlega brjóstamjólkurísinn sem boðið var upp á en þá fengust nokkrar vel mjólkandi mæður frá Hveragerði til að leggja til í hann.
Í fyrsta sinn bauð Kjörís viðskiptavinum sínum að skyggnast örlítið inn í framtíðina og kynnti nýjungar sem væntanlegar eru á árinu. Þar gaf að líta nýja línu af jógúrtís í neytendaumbúðum. Ísinn inniheldur lægra magn af fitu en hefðbundinn ís og þykir af mörgum ferskari kostur. Jógúrtís hefur náð miklum vinsældum víða í heiminum og við höfum fengið fjölda fyrirspurna um hann. Þetta er svar Kjörís.
Sú vara sem mesta athygli hlaut þó var líklega Styrkur ís sem er ís ætlaður fólki sem sækist eftir því að auka próteininntöku sína. Það var mál íþróttafólks á staðnum að þessi ís gæti orðið hluti af daglegri neyslu þess því í skammtinum sem er ansi nettur aðeins um 240 ml. eru 21g af próteini og aðeins 311 kaloríur.
Þetta var í 16. skipti sem Stóri Kjörísdagurinn er haldinn. Viðburðurinn hefur fest sig í sessi sem einn vinsælasti fjölskyldudagur sumarsins og er mikilvægur vettvangur fyrir mjólkurfræðinga og bragðgæðinga Kjörís til að kynna nýjungar og safna viðbrögðum frá neytendum.
Viðbrögðin í ár gefa sterkar vísbendingar um að úr vöndu verði að ráða við val á Mjúkís ársins 2026 því óvenju margar tegundir fengu yfirburða móttökur.