Myndlistarkonan Lilja Birgisdóttir opnar sýningu sína, Um leið og litið er undan, í Þulu gallerí í Marshallhúsinu laugardaginn 16. ágúst kl. 17. Allir eru velkomnir.
„Sýningin fjallar um töfrana allt í kringum okkur. Það eru undur allt í kringum okkur, við þurfum bara að gefa þeim gaum. Suma daga vildi ég gjarnan setja vísifingur á sjálfið og njóta aðeins fegurðar sem ég á að nafninu til. Vita nákvæmlega hvar ég enda og heimurinn byrjar.
En sjálfið er túnfífillinn sem brýst upp úr viðjum malbiksins og telur sig eiga erindi við sólina. Sjálfið er hverful mynd í regnvatninu, stakur rammi sem við gengum næstum því framhjá.
Aðeins í augum sem horfa af alúð lifnar heimurinn við, og enn hefur mér ekki tekist að snerta án þess að vera snert. Allt sem ég glæði lit málar innviði mína hispurslaust í sömu litum.
Við erum gerð úr öllu sem við gefum gaum. Samtímis sólin og túnfífillinn, við erum fislétt þungamiðja í eigin skynveruleika. Gjöful athygli er það eina sem ég á, að nafninu til.“
Lilja Birgisdóttir (f. 1983) er myndlistarkona sem býr og starfar í Reykjavík. Hún vinnur með fjölbreytta miðla, þar á meðal ljósmyndun, gjörninga, myndbandsverk, hljóð og innsetningar. Hún nam ljósmyndun við Royal Academy of Arts í Den Haag og lauk því námi árið 2007. Árið 2010 lauk hún BA-námi í myndlist frá Listaháskóla Íslands.
Lilja er meðlimur í listahópnum Fischersund, sem stofnaður var árið 2017 af systkinunum Ingu, Jónsa, Sigurrós og Lilju. Fischersund rekur ilmhús og sýningarrými í Reykjavík þar sen ilmur, sjónlist og tónlist mætast.
Sjá viðburð um myndlistarsýninguna á Facebook hér.