Bílabúð Benna hefur ákveðið að lækka verð á nýjum bílum frá Porsche og KGM, í kjölfar styrkingar íslensku krónunnar undanfarna mánuði. Um er að ræða aðgerð sem felur í sér þó nokkra lækkun á endanlegu söluverði og tekur strax gildi að sögn Benedikts Eyjólfssonar, forstjóra Bílabúðar Benna.
„Gengi krónunnar hefur styrkst á undanförnum mánuðum og okkur finnst mikilvægt að fyrirtæki axli ábyrgð í slíkum aðstæðum,“ segir Benedikt. ,,Með þessari verðlækkun sýnum við skýra stefnu í verðlagningu sem byggir á raunverulegum aðstæðum í efnahagsumhverfinu.“
Í tilkynningu frá Bílabúð Benna kemur fram að Íslenska krónan hefur styrkst umtalsvert frá vori og eru nú að berast til landsins bílar sem greiddir hafa verið á nýju gengi. Bílabúð Benna flytur inn ökutæki frá Porsche og KGM og lækkar nú verð á báðum vörumerkjum í takt við breyttar forsendur. Fyrirtækið segir að um sé að ræða hluta af langtímamarkmiði þess um gagnsæi og sanngjarna verðlagningu. Verð á Porsche Macan lækkar um milljón krónur og fer verðið því úr 14.950.000 kr. í 13.950.000 kr.