Körfuknattleiksdeild Grindavíkur sendir hjartnæma kveðju til Stefáns Kristjánssonar útgerðarmanns, sem varð bráðkvaddur á heimili sínu í Kópavogi þann 12. ágúst.
Stefán og eiginkona hans, Sandra Antonsdóttir, ráku útgerðarfyrirtækið Einhamar Seafood í Grindavík, sem þau stofnuðu árið 2003. Fyrirtækið er meðal öflugustu ferskfiskframleiðenda á Íslandi.
Eftir jarðhræringar og rýmingu Grindavíkur í kjölfarið í nóvember árið 2023 var Stefán meðal fremstu manna í málum Grindvíkinga og því að bærinn yrði byggður upp á ný fyrir íbúa og atvinnulíf. Eftir alvarlegt mótorhjólaslys í Kambodíu í febrúar þurfti Stefán að leggja kraft í baráttu fyrir bættri heilsu sinni. Hann var afar hætt kominn eftir slysið, en var búinn að ljúka endurhæfingu á Grensás.
Stefán studdi dyggilega við körfuknattleiksdeild UMFG og því er við hæfi að deildin minnist hans með hlýhug. Í færslu á heimasíðu deildarinnar er lýst yfir djúpum söknuði og innilegu þakklæti í garð hans:
„Með djúpum söknuði minnumst við Stefáns Kristjánssonar, útgerðarbónda og kæran vin deildarinnar. Stefán var einn traustasti styrktaraðili og bakhjarl körfuknattleiksdeildar UMFG – máttarstólpi sem stóð óhikað með liðinu, ungum iðkendum og samfélaginu í Grindavík.
Við erum honum innilega þakklát fyrir stuðning, hlýju og ómetanlega trú á starfið; slíkt skiptir sköpum í litlu samfélagi og skilur eftir sig djúp spor. Minningin um Stefán lifir í öllum þeim minningum, gleðistundum og sigrum sem hann átti þátt í að skapa.
Fyrir hönd stjórnar, leikmanna, þjálfara, og sjálfboðaliða sendum við innilegar samúðarkveðjur til fjölskyldu hans og vina. Hvíl í friði kæri Stefán. Minning þín lifir áfram innan sem utan vallar.“